Formúla 1

Ballið búið hjá Hamilton og Vergara

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Áhugi Sofíu Vergara á Lewis Hamilton var ekki endurgoldinn.
Áhugi Sofíu Vergara á Lewis Hamilton var ekki endurgoldinn. vísir/getty

Svo virðist sem glóðin hafi slokknað hjá ökuþórnum Lewis Hamilton og leikkonunni Sofíu Vergara.

Hamilton og Vergara sáust saman í hádegismat í New York í janúar og strax fóru af stað sögur um mögulegt nýtt ofurpar.

En bandarískir fjölmiðlar greina frá því að úti sé ævintýri hjá Hamilton og Vergara. Hún hafi haft áhuga á að taka sambandið lengra en áhugi hans hafi dvínað. Vergara hefur enn samband við Hamilton en fær lítil viðbrögð frá honum.

Vergara skildi við eiginmann sinn, Joe Manganiello, í fyrra eftir sjö ára hjónaband. Frægasta samband Hamiltons var við söngkonuna Nicole Scherzinger.

Hamilton gekk í raðir Ferrari frá Mercedes fyrir þetta tímabil. Hann var dæmdur úr leik í Kínakappakstrinum um síðustu helgi en vann sprettkeppnina. Hamilton hefur sjö sinnum orðið heimsmeistari í Formúlu 1, síðast 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×