Enski boltinn

Al­fons og Willum spiluðu báðir í stór­sigri gegn botnliðinu

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Willum Þór og Alfons Sampsted gengu báðir til liðs við Birmingham síðasta sumar.
Willum Þór og Alfons Sampsted gengu báðir til liðs við Birmingham síðasta sumar.

Willum Þór Willumsson var í byrjunarliðinu og Alfons Sampsted kom inn af bekknum hjá toppliði Birmingham í 4-1 sigri gegn Shrewsbury, neðsta liði League One deildarinnar á Englandi.

Willum byrjaði fremstur á miðju að vana og átti mun betri leik í dag en í síðustu leikjum, samkvæmt staðarmiðlinum Birmingham Mail. Honum var síðan skipt af velli eftir rúmar sjötíu mínútur.

Alfons Sampsted kom inn á skömmu áður, rétt eftir að Birmingham hafði tekið 2-0 forystu. Hann kláraði svo leikinn í hægri bakvarðarstöðunni. Birmingham komst fjórum mörkum yfir en Shrewsbury klóraði í bakkann undir lokin og lokatölur urðu 4-1.

Alfons hefur nú komið við sögu í síðustu fjórum leikjum eftir bekkjarsetu í fimm leikjum þar á undan.

Birmingham er í efsta sæti deildarinnar, með níu stiga forystu og tvo leiki til góða á Wrexham í öðru sætinu.

Króatíski boltinn

Danijel Dejan Djuric kom inn af varamannabekknum og spilaði síðasta hálftímann í 2-1 sigri Istra gegn Osijek. Istra komst yfir rétt fyrir hálfleik og settu síðan sigurmarkið á þriðju mínútu uppbótartíma eftir að hafa fengið á sig jöfnunarmark um miðjan seinni hálfleik. 

Logi Hrafn Róbertsson sat á bekknum allan leikinn, líkt og hann hefur gert síðastliðinn mánuð. 

Istra er í sjöunda sæti deildarinnar þegar níu umferðir eru eftir. Í miklu miðjumoði, tíu stigum frá fallsvæðinu og þrettán stigum frá Evrópubaráttunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×