Körfubolti

Hópslagsmál í NBA og sjö hent úr húsi

Sindri Sverrisson skrifar
Átökin fóru yfir strikið í leiknum í Minneapolis í gærkvöld.
Átökin fóru yfir strikið í leiknum í Minneapolis í gærkvöld. Getty/David Berding

Fimm leikmönnum og tveimur þjálfurum var vísað úr húsi eftir að upp úr sauð í leik Minnesota Timberwolves og Detroit Pistons í NBA-deildinni í körfubolta í gærkvöld. Ekki hafa verið dæmdar fleiri tæknivillur í leik síðan árið 2005.

Myndbönd af slagsmálunum má sjá hér að neðan en átökin brutust út við endalínuna og voru áhorfendur á fremsta bekk, sem nánast urðu undir leikmönnunum, fljótir að taka upp símann til að mynda lætin.

Lætin urðu strax í 2. leikhluta eftir að villa var dæmd á Ron Holland þegar hann sló boltann úr höndum Naz Reid. Þeir skiptust á einhverjum orðum og augnabliki síðar var allt orðið brjálað.

Alls voru dæmdar tólf tæknivillur sem er það mesta í NBA-deildinni síðustu tuttugu ár.

„Mér fannst leyfð allt of mikil átök í leiknum fram að þessu. Þetta endaði með því að leikmenn tóku málin í sínar hendur og það vill maður aldrei að gerist,“ sagði Chris Finch, þjálfari Timberwolves sem vann leikinn að lokum 123-104.

J.B. Bickerstaff, þjálfari Detroit, var á meðal þeirra sem vísað var úr húsi ásamt lærisveinum sínum, Isaiah Stewart, Ron Holland og Marcus Sasser. Minnesota missti þá Naz Reid, Dante DiVincenzo og aðstoðarþjálfarann Pablo Prigioni út.

„Auðvitað gekk þetta of langt,“ sagði Bickerstaff en bætti við: „En maður sér líka að leikmenn eru að gæta hvers annars og styðja hver annan. Það kemur ekki annað til greina í okkar búningsklefa.“

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×