Innlent

Gestir vaktir og Bláa lónið rýmt í snatri

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Helga Árnadóttir er framkvæmdastjóri Bláa lónsins.
Helga Árnadóttir er framkvæmdastjóri Bláa lónsins. vísir/arnar

Bláa lónið hefur verið rýmt og allir gestir þess á leið á önnur hótel eins og stendur. Gestir og starfsfólk í Bláa lóninu voru um 200 manns þegar að kvikuhlaup hófst á Sundhnúksgígaröð á Reykjanesskaga snemma í morgun en um 40 mínútur tók að rýma hótelið og önnur athafnasvæði Bláa lónsins.

Þetta staðfestir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu-, markaðs- og þróunarsviðs Bláa lónsins í samtali við fréttastofu sem segir að vel hafi gengið að rýma svæðið.

„Gestir eru í raun og veru komnir eða á leið á annnað hótel og starfsmenn til síns heima. Þetta gekk vel rétt eins og áður.“

Hún bætir við að gestir hafi verið vaktir í morgun um leið og lá fyrir að kvikuhlaup væri hafið.

„Þau eru upplýst við komu og vita í raun og veru um hvað málið snýst ef þeir eru vaktir á þessum tíma og sýndu því góðan skilning eins og við höfum upplifað áður. Þau brugðust vel við.“

Margir gestir og starfsfólk hafi komið á svæðið á sínum eigin bifreiðum og því yfirgefið svæðið með þeim máta. Öðrum var smalað í rútu. 

„Við viljum þakka gestum góðan skilning, starfsmönnum fagleg vinnubrögð og viðbragðsaðilum gott samstarf. Allar starfsstöðvar Bláa Lónsins í Svartsengi verða lokaðar fram eftir degi,“ segir í tilkynningu frá Bláa lóninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×