Körfubolti

Jokic skoraði 61 stig en Westbrook eyði­lagði allt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nikola Jokic hugsar Russell Westbrook eflaust þegjandi þörfina eftir svakalegt klúður hans gegn Minnesota Timberwolves í nótt.
Nikola Jokic hugsar Russell Westbrook eflaust þegjandi þörfina eftir svakalegt klúður hans gegn Minnesota Timberwolves í nótt. getty/Dustin Bradford

Nikola Jokic átti stórkostlegan leik fyrir Denver Nuggets gegn Minnesota Timberwolves í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Samherji hans, Russell Westbrook, eyðilagði hins vegar allt.

Jokic skoraði 61 stig, tók tíu fráköst og gaf tíu stoðsendingar í leiknum sem var tvíframlengdur. Aldrei hefur leikmaður í sögu NBA verið með þrefalda tvennu og skorað jafn mörg stig í einum leik. Jokic spilaði 53 af 58 mínútum í leiknum.

Westbrook tókst hins vegar að stela fyrirsögnunum með ótrúlegu klúðri undir lok leiks.

Þegar tæpar fjórtán sekúndur voru eftir, í stöðunni 139-138 fyrir Denver, stal Westbrook boltanum og brunaði fram völlinn. Hann klúðraði hins vegar sniðsskoti og Minnesota fékk tækifæri til að tryggja sér sigurinn.

Nickeil Alexander-Walker fékk boltann úti í horninu þegar tæp sekúnda var eftir. Westbrook hljóp í átt að honum og braut á honum þegar hann skaut boltanum fyrir utan þriggja stiga línuna. Þá var 0,1 sekúnda á klukkunni.

Alexander-Walker setti fyrstu tvö vítaskotin niður en brenndi viljandi af því þriðja. Hann tryggði Úlfunum því ótrúlegan sigur, 139-140.

Michael Malone, þjálfari Denver, neitaði að kenna Westbrook um tapið.

„Hann hatar að tapa. Svo hann vill eflaust ekki heyra neitt af þessu því hann er fullkomnunarsinni og keppnismaður. Og þekkjandi hann mun hann eflaust kenna sér að miklu leyti um þetta. En við töpuðum í kvöld. Denver Nuggets, við sem lið töpuðum leiknum, ekki einn leikmaður,“ sagði Malone.

Westbrook spilaði í 38 mínútur í leiknum; skoraði ellefu stig, tók sex fráköst, gaf sjö stoðsendingar og tapaði boltanum fimm sinnum. Denver lék án Jamals Murray og Michaels Porter yngri í nótt. Liðið er í 3. sæti Vesturdeildarinnar.

Þetta var þriðji sigur Minnesota í röð en liðið er í 7. sæti Vesturdeildarinnar. Anthony Edwards skoraði 34 stig fyrir liðið, tók tíu fráköst og gaf átta stoðsendingar. Julius Randle og hetjan Alexander-Walker skoruðu 26 stig hvor.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×