Hátíðin var sett í Hörpu í morgun, þar sem alþjóðlega hönnunarráðstefnan DesignTalks fór af stað. Opnunarpartí hátíðarinnar verður svo í Hafnarhúsinu á morgun klukkan fimm. Stjórnandi Hönnunarmars hvetur fólk til að láta sjá sig.
„Þar eru einnig þrjár sýningar. Í kjölfarið opna um hundrað sýningar, og næstu daga yfir hundrað viðburðir um alla borg,“ segir Helga Ólafsdóttir, stjórnandi Hönnunarmars.
Fólk frá öllum heimshornum
Hátíðin, sem er í ár haldin í 17. skipti, sýni mikla breidd í íslenskri hönnun.
„Í raun er þetta rosa gott platform fyrir hönnuði til að sýna hvað þeir eru að gera hverju sinni, og kynna það fyrir almenningi. Og ég vil líka segja að það er frítt inn á allar sýningar og allir velkomnir.“
Það kemur væntanlega fólk alls staðar að úr heiminum til að vera með?
„Já. Til dæmis var ég að klára að hlusta á fyrirlesara frá Mexíkó. Já, það kemur fólk frá öllum heiminum og tekur þátt með ýmsum hætti.“
Vorboðinn ljúfi
Einhverjir glöggir lesendur kunna að taka eftir því að Hönnunarmars hefst í upphafi apríl þetta árið.
„Hönnunarmars hófst í mars upphaflega, af því að það var kannski mánuður þar sem var lítið að gerast í borginni. Merking hönnunarmars er líka að marsera, þannig að við höfum verið óhrædd að færa hátíðina til hvert ár. Okkur finnst ágætt að hún sé kannski aðeins nær vorinu, og sé einn af vorboðunum,“ segir Helga.