Viðskipti innlent

Kaup­máttur jókst á milli ára

Kjartan Kjartansson skrifar
Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur nú aukist um svipað hlutfall undanfarin tvö ár.
Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur nú aukist um svipað hlutfall undanfarin tvö ár. Vísir/Vilhelm

Áætlað er að kaupmáttur ráðstöfunartekna heimila á mann hafi aukist um 2,8 prósent í fyrra borið saman við árið 2023. Á sama tímabili jókst verðbólga um 5,9 prósent. Laun hækkuðu um 6,6 prósent að meðaltali á milli ára í fyrra.

Ráðstöfunartekjur heimilanna jukust um 10,8 prósent árið 2024 borið saman við fyrra ár samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum Hagstofu íslands. Ráðstöfunartekjur á mann námu tæplega 6,3 milljónum króna á árinu 2024 og jukust um 8,8 prósent frá fyrra ári en mannfjöldaaukning var tæplega tvö prósent á árinu.

Heildartekjur heimilanna jukust árið 2024 um 8,1 prósent frá fyrra ári. Sá liður sem þyngst vegur í hækkun á heildartekjum heimilanna eru launatekjur sem áætlað er að þær hafi aukist um rúma 158 milljarða frá fyrra ári eða sem nemur 6,9 prósentum. 

Á sama tímabili jukust skattar á laun um rúma 45 milljarða eða um 6,9 prósent. Samkvæmt launavísitölu Hagstofu Íslands hækkuðu laun að meðaltali um 6,6 prósent á árinu 2024 borið saman við fyrra ár en starfandi einstaklingum fjölgaði um 2,2 prósent á sama tímabili.

Áætlað er að vaxtagjöld heimila hafi aukist um 10,1 prósent á árinu 2024 borið saman við fyrra ár. Á sama tímabili jukust eignatekjur heimila um 16,6 prósent.

Áætlað er að lífeyristekjur og félagslegar tilfærslur til heimilanna hafi aukist um tæpa 66 milljarða króna frá fyrra ári sem nemur um 11,6% aukningu á milli ára. Lífeyristekjur og félagslegar tilfærslur námu 15% af heildartekjum heimilanna árið 2024.

Tryggingagjöld atvinnurekenda og launafólks heimilisgeirans jukust um 3% á árinu 2024.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×