Körfubolti

Lakers vann toppliðið í vestrinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn Oklahoma City Thunder réðu lítið við Luka Doncic.
Leikmenn Oklahoma City Thunder réðu lítið við Luka Doncic. getty/William Purnell

Luka Doncic skoraði þrjátíu stig þegar Los Angeles Lakers sigraði Oklahoma City Thunder, 99-126, í NBA-deildinni í körfubolta í gær.

Lakers er nú komið upp í 3. sæti Vesturdeildarinnar með 48 sigra og þrjátíu töp. Oklahoma er á toppnum með 64 sigra og fjórtán töp og Houston Rockets í 2. sæti með 52 sigra og 27 töp.

Doncic hitti úr ellefu af tuttugu skotum sínum utan af velli í leiknum í gær. Hann tók einnig sjö fráköst og gaf sex stoðsendingar. Hann er með 27,2 stig, 8,3 fráköst og 7,8 stoðsendingar að meðaltali í leik síðan hann gekk í raðir Lakers.

Austin Reaves skoraði tuttugu stig fyrir Lakers og LeBron James var með nítján stig og sjö stoðsendingar.

Leikmenn Lakers hittu úr 22 af fjörutíu skotum sínum fyrir utan þriggja stiga línuna í leiknum. Það gerir 55 prósent skotnýtingu.

Shai Gilgeous-Alexander var einu sinni sem oftar stigahæstur hjá OKC með 26 stig. Jalen Williams kom næstur með sextán stig.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×