Schauffele fór mikinn á árinu 2024. Hann fagnaði sigri á tveimur af fjórum risamótum. Það fyrra vann hann í maí á Valhalla-vellinum er hann stóð uppi sem sigurvegari á PGA-meistaramótinu og fylgdi því eftir með sigri á Opna breska meistaramótinu í júlí.
Schauffele er þriðji á heimslistanum en rifjameiðsli hafa strítt honum það sem af er ári. Þrátt fyrir það hefur hann komist í gegnum niðurskurð á 60 mótum í röð á PGA-mótaröðinni.
Æfingum var frestað á Augusta-vellinum í Georgíu í gær vegna þrumuveðurs og rigninga. Schauffele sagði í viðtali í gær:
„Ég get algjörlega unnið mótið. Ég væri ekki hérna ef ég tryði því ekki. Ég veit hvað ég er fær um þegar mér líður vel, þegar ég hugsa ekki um annað en að koma boltanum í holuna,“
„Ég hef verið að vinna í því að komast aftur á þann stað. Mér finnst ég hafa snúið hlutum við síðasta mánuðinn,“ segir Schauffele um heilsuna.
„Á síðasta ári gekk mjög vel. Ef ég er heilbrigður, hreyfi mig vel, sveifla vel og haga undirbúningnum á réttan hátt veit ég alveg hvert það getur skilað mér,“ segir Schauffele sem hefur verið á meðal 18 efstu á síðustu ellefu risamótum sem hann hefur tekið þátt í.
Masters-mótið hefst á fimmtudag og verður sýnt beint frá því á Stöð 2 Sport 4 frá fimmtudegi fram á sunnudag.
Bein útsending frá mótinu hefst klukkan 19:00 á fimmtudagskvöld.