Nýbökuðu foreldrarnir Rut og Halldór greina frá á Facebook síðum sínum en drengurinn fæddist þann fjórða apríl.
„Litla fjölskyldan er núna komin heim í hreiðrið sitt og allir eru á batavegi. Þökkum allar kveðjur og hlýjar óskir, við getum ekki verið stoltari af dásamlega litla unganum okkar. Endalaus ást í allar áttir,“ skrifa þau á Facebook.
Samkvæmt færslunni virðist fæðingin ekki hafa farið eftir áætlun en það sem átti að vera heimafæðing endaði í nokkurra daga veru á Landspítalanum. Bæði Rut og drengurinn eru á batavegi og fengu góðan tíma til að jafna sig á sjúkrahúsinu.
Hjónin giftu sig í október árið 2024. Rut starfar sem íslenskukennari og hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin árið 2020 en Halldór starfar sem Senior Network Engineer hjá Wise lausnum ehf.