Kári meiddist í fyrsta leik einvígis Vals og Grindavíkur í 8-liða úrslitum Bónus-deildarinnar. Þó að betur hafi farið en á horfðist, og krossband ekki slitnað í hnénu, þá eru meiðslin þess eðlis að Kári mun ekki koma meira við sögu í úrslitakeppninni.
Kári var því ekki með í gær þegar Valur lenti 2-1 undir í einvíginu með tapi á heimavelli. Fyrir leikinn ræddi hann við Andra Má Eggertsson en viðtalið má sjá hér að neðan.
„Maður er aðallega svekktur að fá ekki að taka þátt í þessari veislu sem er hérna í gangi. Það eru búnar að vera mixaðar tilfinningar í þessu, maður fer hátt og lágt, en maður getur huggað sig við að ég var líka heppinn og slapp við það versta. Þetta var það skásta í stöðunni,“ sagði Kári fyrir leikinn í gærkvöld.
Það að krossband hafi ekki slitnað þýðir að Kári gæti mögulega spilað með Íslandi á EM sem hefst 27. ágúst en á þó eftir að skýrast betur.
Þrátt fyrir meiðslin ætlar Kári, líkt og í fyrra, að vera líflegur á bekknum hjá Val í úrslitakeppninni.
„Alveg klárlega. Ég held að ég gleymi mér í leiknum og æsingnum. Maður missir sig. Ég þarf að fá alla vega einhvern smjörþef af leiknum og vera með í fjörinu,“ sagði Kári sem þarf að treysta á að Valur vinni Grindavík í Smáranum á mánudagskvöld til að fjörinu ljúki ekki hjá Valsmönnum.