Umræðan

Breyttri fram­kvæmd Skattsins snúið við

Sandra Lind Valsdóttir og Katrín Björk Þórhallsdóttir og Edda María Sveinsdóttir skrifa

Á haustdögum var skrifuð grein sem birtist í Viðskiptablaðinu þar sem vakin var athygli á mikilvægi þess að stjórnendur fyrirtækja væru meðvitaðir um breytta og íþyngjandi skattframkvæmd varðandi tilfærslur milli virðisaukaskattsnúmera, sem gæti leitt af sér aukinn og ófyrirséðan kostnað fyrir fyrirtæki á Íslandi.

Starfsemi fyrirtækja getur verið fjölbreytt og þarf t.a.m. að gæta þess að sækja um skráningu á virðisaukaskattsskrá vegna ólíkra hluta starfsemi þeirra. Fyrirtæki geta einnig verið með fleiri en eitt virðisaukaskattsnúmer sem getur leitt til flókinna virðisaukaskattsskila. Fyrirtæki geta eingöngu sótt innskatt vegna kaupa á vöru og þjónustu sem varðar virðisaukaskattsskylda starfsemi þeirra sem er skráð á virðisaukaskattsskrá. Gæta þarf að því að sækja innskatt á réttu virðisaukaskattsnúmeri svo innskattsheimild sé til staðar og í sumum tilfellum þarf að hlutfalla innskatt á milli númera ef innskattur varðar heildarstarfsemi fyrirtækis. Ef innskattur er sóttur á röngu virðisaukaskattsnúmeri þá verður að færa hann yfir á rétt númer með tilfærslu innskatts á milli virðisaukaskattsnúmera. Í þeim tilvikum er þó niðurstaðan fyrir fyrirtækið og ríkissjóð sú sama þar sem fjárhæð innskatts er dregin frá á einu virðisaukaskattsnúmeri en bætt við á öðru, á sama uppgjörstímabili og á sömu kennitölu.

Hin breytta framkvæmd fólst í því að ríkisskattstjóri hóf, án sérstakrar opinberrar tilkynningar eða skýrs lagagrundvölls, að leggja 10% álag auk dráttavaxta á fjárhæð tilfærðs innskatts, sem færður var milli tveggja virðisaukaskattsnúmera sama fyrirtækis þó svo að engin skuld eða oftekinn innskattur hafi myndast við tilfærsluna. Slíkt hafði ríkisskattstjóri ekki gert áður og kom þessi beiting álags og dráttavaxta því rekstraraðilum að óvörum.

Samkvæmt þessum úrskurðum er ljóst að þessi nýja framkvæmd ríkisskattstjóra er án lagaheimildar, og sýna þeir jafnframt mikilvægi þess að stigið sé varlega til jarðar þegar breyta á framkvæmd með íþyngjandi hætti fyrir skattaðila.

Þessi breytta framkvæmd ríkisskattstjóra hefur haft í för með sér töluverðan kostnað fyrir aðila sem hugðust leiðrétta færðan innskatt á milli virðisaukaskattsnúmera. Undirritaðar fá ekki séð að þörf hafi verið á að beita svo íþyngjandi refsikenndum viðurlögum vegna mistaka sem leiða ekki af sér skuld, enda hvorki um að ræða offærðan innskatt né vangreiddan útskatt.

Eitt álitamál, tvær kærur

Málin vandast svo þegar kæra á beitingu álags og dráttarvaxta vegna skattákvörðunar, en ekki er hægt að kæra beitingu bæði álags og dráttarvaxta með einni kæru til sama úrskurðaraðila. Álagsbeitingin er kærð til yfirskattanefndar en kæra þarf álagningu dráttarvaxta með annarri kæru til fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Yfirskattanefnd og fjármála- og efnahagsráðuneytið hafa nú úrskurðað í fyrsta málinu sem varðar þessa breyttu framkvæmd.

Sandra Lind Valsdóttir, liðstjóri hjá Deloitte Legal, Katrín Björk Þórhallsdóttir, sérfræðingur hjá Deloitte Legal, og Edda María Sveinsdóttir, sérfræðingur hjá Deloitte Legal.

Um er að ræða úrskurð yfirskattanefndar nr. 11/2025 sem birtur var fyrir skömmu. Niðurstaða nefndarinnar var sú að ríkisskattstjóri hefði ekki mátt gera þá kröfu að kærandi þyrfti að færa innskatt milli virðisaukaskattsnúmera vegna framkvæmda á útleiguhúsnæði í hans eigu. Kærandi hafði þannig innskattað framkvæmdirnar á réttu virðisaukaskattsnúmeri að mati nefndarinnar og því ljóst að krafa ríkisskattstjóra byggði á innanhúss verklagsreglu en ekki á heimild í lögum eða reglugerðarákvæðum. Ákvarðanir ríkisskattstjóra voru því felldar úr gildi. Við tilfærslu innskatts á milli númera hafði ríkisskattstjóri beitt álagi og þrátt fyrir að yfirskattanefnd hafi fellt ákvarðanirnar úr gildi, og þar með talið beitingu álagsins, taldi yfirskattanefnd tilefni til að fjalla sérstaklega um álagsbeitinguna. Var að mati höfunda rík ástæða til þess.

Í umfjöllun sinni um álagsbeitingu hnýtir yfirskattanefnd í tvö mikilvæg atriði. Til að byrja með taldi yfirskattanefnd að skilyrði fyrir beitingu álags hefðu ekki verið fyrir hendi þar sem hvorki var um að ræða síðbúin skil á virðisaukaskatti né offærðan innskatt. Tilfærsla innskatts á milli númera leiddi ekki til neinna breytinga á heildarfjárhæð þess innskatts sem kærandi átti rétt á og því enginn grundvöllur fyrir beitingu álags. Yfirskattanefnd taldi einnig að ríkisskattstjóri hefði ekki gætt að andmælarétti kæranda þar sem honum hafi ekki verið gefinn kostur á að andmæla álagsbeitingunni fyrr en henni var lokið. Þá voru einnig gerðar talsverðar athugasemdir við málsmeðferð ríkisskattstjóra, bæði að formi og efni til.

Það verður að teljast varhugavert að stjórnsýsluframkvæmd sé breytt með slíkum íþyngjandi hætti á grunni einhliða ákvörðunar eftirlitsaðila og án lagabreytinga.

Í úrskurði fjármála- og efnahagsráðuneytisins tók ráðuneytið undir með yfirskattanefnd að umkrafðar leiðréttingar á virðisaukaskattsskilum hafi ekki leitt til neinna breytinga á tilfærðum innskatti fyrirtækisins. Með vísan til þess og niðurstöðu yfirskattanefndar að öðru leyti þá var ekki talið að skilyrði til álagningu dráttarvaxta hafi verið uppfyllt.

Af stað með trukki og dýfu

Samkvæmt þessum úrskurðum er ljóst að þessi nýja framkvæmd ríkisskattstjóra er án lagaheimildar, og sýna þeir jafnframt mikilvægi þess að stigið sé varlega til jarðar þegar breyta á framkvæmd með íþyngjandi hætti fyrir skattaðila. Það verður að teljast varhugavert að stjórnsýsluframkvæmd sé breytt með slíkum íþyngjandi hætti á grunni einhliða ákvörðunar eftirlitsaðila og án lagabreytinga. Hefur þessi breytta framkvæmd leitt af sér gríðarlegan og óþarfan kostnað fyrir fjölmarga aðila. Ekki einungis vegna þess álags og dráttarvaxta sem lagðir hafa verið á, en einnig vegna þess kostnaðar sem þessir aðilar hafa borið við að kæra, til tveggja mismunandi úrskurðaraðila, þessa ósanngjörnu beitingu refsikenndra viðurlaga, sem að auki hafa engin áhrif á ríkissjóð, enda heildarniðurstaða innskatts sú sama.

Þá er umhugsunaratriði hvers vegna nauðsynlegt þykir að hafa það fyrirkomulag að kæra slíkt álitaefni til tveggja úrskurðaraðila, sem báðir fjalla þá í raun um sama álitaefnið. Þetta skapar ekki einungis viðbótar flækjustig fyrir þá aðila sem reyna að gæta réttar síns gagnvart sríkissjóði, heldur jafnframt aukinn kostnað fyrir þá sem og ríkissjóð. Velta má upp hvort skilvirkari meðferð slíkra mála væri hægt að finna, sem væri til einföldunar fyrir þá sem undir álögum sitja. Undirritaðar telja best að yfirskattanefnd væri heimilt að úrskurða um bæði beitingu álags og dráttarvaxta enda er nefndin sá úrskurðaraðili sem úrskurðar almennt um skattalega álitamálið og því mikið hagræði í því að nefndin geti fjallað um ágreining málsins í heild sinni.

Höfundar eru: 

Sandra Lind Valsdóttir, liðstjóri hjá Deloitte Legal

Katrín Björk Þórhallsdóttir, sérfræðingur hjá Deloitte Legal

Edda María Sveinsdóttir, sérfræðingur hjá Deloitte Legal




Umræðan

Sjá meira


×