Innlent

„Á­gæt á­bending“ um bóta­þega en tekur ekki undir allar at­huga­semdir fjármálaráðs

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Daði Már bregst við athugasemdum fjármálaráðs vegna fjármálaáætlunar.
Daði Már bregst við athugasemdum fjármálaráðs vegna fjármálaáætlunar. Vísir/Vilhelm

Fjármálaráð gerir margvíslegar athugasemdir í umsögn sinni um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem nú er í meðförum Alþingis. Ráðið gagnrýnir meðal annars að því sé gert ókleyft að uppfylla lögbundið hlutverk sitt vegna nýs verklags, og þá er áhyggjum lýst af því að boðaðar breytingar á örorku- og ellilífeyrisbótakerfinu geri bótaþegum hærra undir höfði en launþegum.

Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra tekur undir með fjármálaráði, sem bendir á í álitsgerð sinni, að það sé óheppilegt að fjármálastefna og fjármálaáætlun séu samtímis til umfjöllunar á Alþingi.

„Jú auðvitað hefðum við kosið áður en að fjármálastefnan hefði verið lögð fram fyrr. En það er stutt síðan við tókum við og þetta byggir allt á útfærslum á svipuðum gögnum, en það er miklu heppilegra að fjármálastefnan sé afgreidd áður en að fjármálaáætlun kemur til umræðu,“ segir Daði.

Vill nýta fjármálaráð sem best

Ráðið bendir jafnframt á að nýtt verklag geri ráðinu erfiðara fyrir að uppfylla lögbundið hlutverk sitt.

Er það ekki óboðleg staða sem þarf með einhverjum hætti að bregðast við?

„Jú, en það er rétt að halda til haga að það sem fjármálaráð er að gera athugasemdir við þarna er að hin eiginlega útfærsla á útgjöldum ríkisins sem kemur fram í fjárlögum er ekki yfirfarin af fjármálaráði,“ svarar Daði. Það þýði að ráðið hafi ekki aðstöðu til að meta árangurinn af fjármálaáætlun.

Daði segir að ábending ráðsins hvað snýr að þessu sé á margan hátt skynsamleg og verði tekin til greina. „Það er kveðið á um það að fjármálaráð geri úttekt og skili áliti bæði á fjármálastefnu og fjármálaáætlun, en hinn eiginlega útfærsla sem kemur fram í fjárlögum fer ekki í þennan dóm. Og það er mjög mikilvægt að útfærslan sé yfirfarin,“ segir Daði, einkum í ljósi þess að það eru fjárlögin sem ákvarða hvernig peningum er ráðstafað.

Til standi að auka við hlutverk fjármálaráðs þannig að það fái líka það hlutverk að ákvarða framleiðniþróun. „Ég held að í tengslum við þær breytingar sé mikilvægt að við nýtum fjármálaráð eins vel og mögulegt er og eitt af því er auðvitað að það séu þá gerðar úttektir á því hvernig fjármálaáætlunin birtist í fjárlögum.“

„Ágæt ábending“ en tekur ekki undir

Fram kemur í áliti ráðsins að áform, um að þróun örorku- og ellilífeyrisbóta taki mið af launavísitölu og verðtryggingu sem gólfi, sé grundvallarbreyting frá núverandi kerfi sem geti haft ýmsar afleiðingar í för með sér. Er það túlkun ráðsins að áformin feli í sér að bótaþegum verði gert hærra undir höfði en launþegum.

Er þetta ekki til þess fallið að draga úr hvata á vinnumarkaði, og gengur dæmið einfaldlega upp?

„Nú er það þannig að þessir hópar hafa dregist aftur úr og það er markmið ríkisstjórnarinnar að snúa þeirri þróun við. Það síðan hvert umfangið er er önnur umræða. Ég held samt að við setjum okkur kerfi sem eru þannig að þau virki fyrstu árin en síðan að þau leiði þau eiginlega sjálfkrafa til þess að það gliðni aftur á milli hópa sé ekki heppileg. Við þurfum að taka þessa umræðu upp á borðið. Ég held að ábendingin sé ágæt, en ég tek ekki undir að þetta skref út af fyrir sig breyti því að við þurfum alltaf að vera með augun á því hvernig þessi kerfi eru og hvort fólk geti lifað af þeim bótum sem ríkið ákvarðar,“ svarar Daði.

Ráðið bendir á að þessi ráðstöfun geti leitt til ósjálfbærni opinberra fjármála, en Daði segir að þegar liggi fyrir greining á áhrifum fyrirhugaðra breytinga. „Það sem þarna er verið að tala um er að bæturnar fylgi launavísitölu. Mjög stór hluti, um 25% af ríkisútgjöldum eru launaútgjöld, þannig að það er ekki eins og að þessi áhrif séu einskorðuð við þennan part. Það er einfaldlega bara þannig að ef að ríkið veitir þjónustu sem af stóru leyti er þjónusta sem starfsmenn veita, og þar af leiðandi fylgi kostnaðurinn launaþróun, að þá þurfum við að horfa til þess að hagræða og taka tillit til þess að laun hækka að jafnaði hraðar heldur en verðlag,“ segir Daði.

Erfitt að spá um framtíðina

Fjármálaráð fagnar aftur á móti „metnaðarfullu markmiði um hallalaus fjárlög árið 2027,“ líkt og það er orðað í álitinu. Þrátt fyrir göfug markmið er bent á að það hafi verið reglan frekar en undantekningin undanfarin ár að óvænt áföll hafi sett strik í reikning ríkisfjármála.

Lítur þú svo á að þetta séu raunsæ markmið, einkum í ljósi þess að nú eru blikur á lofti til dæmis í alþjóðakerfinu?

„Það er voða erfitt að spá fyrir um framtíðina. Ég held að aðalmarkmið okkar ríkisstjórnarinnar er að tryggja að ríkissjóður hafi bolmagn til þess að bregðast við ófyrirséðum áföllum. Og ófyrirséð áföll eru auðvitað eitthvað sem þú getur mjög illa skipulagt viðbrögðin við í ljósi þess að þú veist ekki hver þessi áföll eru eða hvenær þau muni falla á,“ segir Daði. „Það besta sem við getum gert er að tryggja að skuldir ríkisins séu hóflegar.“ Þessi þáttur í stefnu ríkisstjórnarinnar njóti stuðnings fjármálaráðs.

Ítrekar að hækkun veiðigjaldsins sé „leiðrétting“ 

Ráðið bendir einnig á í áliti sínu að álögur á sjávarútveg muni aukast verulega með boðuðum breytingum á veiðigjaldi.

Er búið að greina áhrifin af þessum gjörningi?

„Ég vil í fyrsta lagi segja að þetta auðvitað ekki stórfengleg breyting á lögunum. Þetta er fyrst og fremst leiðrétting á útreikningunum. Á sínum tíma var gert ráð fyrir því að skiptingin á milli útgerðarinnar og eigenda auðlindarinnar, sem ríkið fer með fyrir hönd þjóðarinnar, væri tveir þriðju til útgerðarinnar og einn þriðji til ríkisins. Þetta er ekki að breytast. Og þar af leiðandi er sú þjóðhagslega greining sem þarf hún er óbreytt frá núgildandi lögum,“ segir Daði. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa gagnrýnt áformin harðlega, sem þau segja að stangist beinlínis á við stjórnarskrá.

Aðspurður vill Daði ekki fullyrða um hvort hann telji breytingarnar til þess fallnar að hámarka þjóðhagslegan ábata af greininni. „Það er önnur spurning. Það hefur svo sem verið rætt og stjórnmálaflokkar hafa haft mismunandi skoðanir. Viðreisn, minn stjórnmálaflokkur, hefur talið að það væri miklu heppilegra að útgerðin sjálf ákveddi þetta. Einfaldlega með því að hluti af kvótanum færi á markað á hverju ári. Það er þá einfaldlega bara þannig að hagnaðurinn af því að eiga kvóta endurspeglast í verðinu og það myndi þá skila sér í tekjum til þjóðarinnar,“ segir Daði.

„Það myndi skila mestum hagnaði, en hvað slíkt kerfi myndi síðan leiða af sér er ekki auðvelt að segja til um. Við höfum aldrei gert neinar tilraunar með þetta,“ segir Daði. Færeyingar hafi farið þessa leið með ágætum árangri en engin reynsla af slíku hér á landi.

Sjá einnig: Ekkert samtal í gangi milli stjórnvalda og sjávarútvegs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×