Enski boltinn

Biður stuðnings­fólk af­sökunar á skítnum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Vardy er allt annað en sáttur.
Vardy er allt annað en sáttur. Leicester City FC/Getty Images

Jamie Vardy, framherji Leicester City, hefur beðið stuðningsfólk félagsins afsökunar eftir að ljóst var að Refirnir eru fallnir úr ensku úrvalsdeildinni.

Leicester City tapaði 0-1 fyrir verðandi Englandsmeisturum Liverpool í leik liðanna um liðna helgi. Tapið þýddi að Refirnir eru formlega fallnir en það hefur stefnt í það lengi vel. 

„Á þessum tímapunkti veit ég ekki hvað skal segja. Ég á engin orð til að lýsa tilfinningum mínum. Ég er bæði reiður og sorgmæddur yfir því hvernig tímabilið hefur farið. Það eru engar afsakanir,“ segir Vardy á Instagram-síðu sinni.

Þrátt fyrir ömurlegt gengi liðsins í vetur hefurhinn 38 ára gamli Vardy skorað sjö mörk og lagt upp þrjú til viðbótar. Hann er í guðatölu hjá félaginu eftir að hafa skorað 198 mörk og gefið 69 stoðsendingar síðan hann gekk til liðs við það árið 2012. 

„Sem ein heild, sem leikmenn og sem félag, höfum við brugðist. Það er ekki hægt að fela sig og ég neita tillögum um slíkt. Hafandi verið hjá félaginu jafn lengi og raun ber vitni, hafandi farið upp í hæstu hæðir og lægstu dali þá hefur þetta tímabilið verið ekkert annað en ömurlegt. Fyrir mig persónulega hefur það verið algjör skelfing. Þetta svíður og ég veit að ykkur líður eins.“

„Til stuðningsfólksins: Mér þykir það leitt. Mér þykir leitt að hafa ekki spilað betur og þykir leitt að við séum að enda 2025 tímabilið með slíkri skíta sýningu (e. s**t show),“ sagði fyrirliðinn Vardy að endingu. 

Samningur hans við félagið rennur út í sumar en hann ætlar þó ekki að leggja skóna á hilluna. Reikna má með að Refirnir bjóði honum möguleikann á að brjóta 200 marka múrinn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×