Lífið

Hjartaknúsarinn til­einkaði ís­lenskri fyrir­sætu rómantískan slagara

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jógvan Hansen söngvari, Hafliði Breiðfjörð ljósmyndari, Ívar Guðmundsson útvarpsmaður og forsetahjónin fyrrverandi Eliza Reid og Guðni Th. Jóhannesson voru á meðal tónleikagesta og voru öll í skýjunum með tónleikana.
Jógvan Hansen söngvari, Hafliði Breiðfjörð ljósmyndari, Ívar Guðmundsson útvarpsmaður og forsetahjónin fyrrverandi Eliza Reid og Guðni Th. Jóhannesson voru á meðal tónleikagesta og voru öll í skýjunum með tónleikana.

Hjartaknúsarinn Bryan Adams tók alla sína bestu slagara, söng Don Juan ballöðu til íslenskrar fyrirsætu og laumaði því til tónleikagesta að hann hefði skellt sér nakinn í íslenska náttúrulaug. Þá upplýsti hann að einn af hans helstu slögurum hefði verið saminn fyrir bíómynd um karlkyns strippara, eitthvað sem reyndist honum erfitt að sækja innblástur fyrir ástarlag.

Þeir sem eru á leið á tónleika kvöldsins og vilja láta koma sér á óvart ættu ekki að lesa lengra.


Það er sannarlega hægt að titla Bryan Adams Íslandsvin með stóru Í-i. Adams hélt tónleika í Laugardalshöll árið 1991 sem gekk þó ekki áfallalaust fyrir sig. Rafmagnslaust varð í höllinni en áhorfendur sungu með Kanadabúanum sólarhring síðar á aukatónleikum.

Síðan skein sól hitaði upp fyrir Bryan Adams í Laugardalshöll í aðdraganda jóla árið 1991. Hér má sjá brot úr umfjöllun DV.

Hann spilaði á tvennum tónleikum í Eldborgarsal Hörpu sumarið 2014 og nú ellefu árum síðar er dagskráin sú sama. Tvennir tónleikar í Eldborg á Bare Bones tónleikaferðalagi þar sem kappinn flakkar frá Íslandi til Færeyja, Skotlands, Norður-Makedóníu, Serbíu, Búlgaríu, Rúmeníu og loks Albaníu.

Bare Bones vísar til þess að um návígi er að ræða við Adams, „inn að beini“, þar sem Adams er einn með gítarinn en nýtur stuðnings píanóleikara.

Nakinn í náttúrulaug

Adams verður 66 ára á árinu en eins og stórstjarna er siður heldur hann sér í flottu formi. Tónleikagestir þurftu ekki að bíða lengi eftir Adams því augnablikum eftir að ljósin voru slökkt rölti Adams inn á svið með gítar í hönd.

Rokkstjarnan fór beint í lagið Run to You af Reckless-plötunni og spilaði raunar tvö lög áður en hann heilsaði gestum og rifjaði upp heimsókn sína fyrir rúmum áratug. 

Hann dásamaði land og þjóð og upplýsti að hann hefði dvalið hér á landi í nokkra daga við tökur á tónlistarmyndbandi. Hann sagðist vita til þess að sumir Íslendingar flyttu til annarra landa og það væri eitthvað sem hann skildi ekki. „Af hverju ætti maður að vilja flytja héðan?“ sagði Adams mögulega litaður af blíðunni á suðvesturhorninu yfir páskana. Það væri svo stórkostlega fallegt myndefni á Íslandi, hvert sem litið væri - og vísaði til íslenskra kvenna.

Hann upplýsti að hann hefði eitt kvöldið notið norðurljósanna sem hann þekkti þó vel frá heimalandinu en Adams er frá Vancouver í Vestur-Kanada. Að sýningunni lokinni sem hefði verið við vita í nágrenni höfuðborgarsvæðisins hefði hann skellt sér í náttúrulaug. Hann gat ekki stillt sig um að lauma til tónleikagesta að hann hefði verið kviknakinn í lauginni sem eflaust kitlaði forvitni einhverra kvenna í salnum.

Hinn almenni Adams aðdáandi fékk að heyra öll þekktustu lög kappans. Þeir sem kunna katalóginn utan að hafa örugglega saknað einhverra laga en það er bara hægt að koma svo mörgum lögum fyrir á tveggja tíma tónleikum.

Stórkostlegt sumar, eða kynlífsstelling?

Tónleikarnir voru án hlés sem varð til þess að fólk var aðeins á ferðinni, líklega til að kasta af sér vatni. Adams varð var við það að fólk á fremsta bekk var fjarverandi þegar hann söng slagarann Summer of 69.

Algengt er að frægustu lög séu tekin í lok tónleika, jafnvel sem uppklapp. Í það minnsta ákvað Adams að nefna það á sviðinu að fólkið á fremsta bekk, augljóslega miklir aðdáendur, hefðu misst af laginu. Þá var ekkert annað að gera en að spila það aftur nokkrum lögum síðar, reyndar í styttri útgáfu. Þá leyfðu tónleikagestir sér að taka betur undir með laginu sem fjallar um hið frábæra sumar 1969, já eða vinsæla kynlífsstellingu miðað við lokasetninguna í laginu (Me and my baby in a 69).

Almennt voru gestir aðeins feimnir að syngja með en kannski skiljanlega á svona mjúkum tónleikum án hljómsveitar og láta. Það var frekar að fólk raulaði með, hreyfði varirnar en leyfði rödd Adams að óma um salinn. Á stundum hvatti Adams þó gesti til að taka vel undir eða bauð upp á þagnir til að fylla inn í textana sem gestir tóku vel í.

Fólk naut þess líka að heyra sögur af tilurð laga og samstarfi þar sem Tina Turner, Barbra Streisand og Bonnie Tyler komu við sögu. Ekki amalegt þríeyki það! Adams og Turner sungu saman It's Only Love á sínum tíma og svo var skemmtileg saga af samstarfi Adams við Streisand sem gerði meiriháttar breytingar á laginu I finally found someone sem hún hafði sent honum.

Þá flutti Bonnie Tyler Straight from the Heart sem var að finna á B-hlið smáskífunnar Total Eclipse of the Heart sem naut mikilla vinsælda enda ein frægasta rokkballaða sögunnar. 

Söng til Ingu Eiríks

Einn af hápunktum tónleikanna var þegar Adams tileinkaði einn af sínum helstu ástarslögurum til íslenskrar fyrirsætu. Hann sagði Ingu Eiríksdóttur fyrirsætu hafa leikið stórt hlutverk í tónlistarmyndbandi sem hann reiknar með að senda frá sér í haust. Hann kallaði til Ingu í salnum sem vinkaði til baka úr sætaröð 13. Inga og systur hennar eru miklir harmónikkuspilarar og kom fram í máli Adams að Inga hefði spilað á harmónikkuna yfir páskana og hann orðið hugfanginn. Þar væri á ferðinni hljóðfæri sem allajafna væri ekki mikið í umræðunni en væri einstakt.

Adams sagðist tileinka næsta lag Ingu og þar var á ferðinni Have Wou Ever Really Loved a Woman úr bíómyndinni Don Juan deMarco þar sem Johnny Depp leikur karlmann sem telur sig vera elskhuga allra elskhuga, Don Juan. Textinn fjallar um það hvernig maður á að koma fram við konuna sem maður elskar. Í lok lagsins sem endar á línuninni „Have you ever really loved a woman“ bætti Adams við orðinu „...an Icelandic woman“ við mikinn fögnuð.

Lagið er langt í frá það eina úr smiðju Adams sem hefur leikið stórt hlutverk í bíómyndum. Everything I Do (I Do It For You) var aðallagið í Robin Hood: Prince of Thieves með Kevin Costner í upphafi tíunda áratugarins. Má vel vera að lagið hafi verið kveikjan að þeirri tilhneigð að ljúka stórum Hollywood-myndum á nýjan leik með flottu lagi eins og varð tilfellið í Titanic, Armageddon, Con Air og Bodyguard svo einhverjar myndir séu tíndar til.

Karlkyns strippari veitti engan innblástur

Adams flutti slagara sinn Heaven sem hann sagðist hafa verið beðinn um að semja fyrir bíómynd. Um er að ræða bíómyndina A Night in Heaven frá 1983 sem fjallar um karlkyns fatafellu. Adams grínaðist með það á tónleikunum að honum hefði reynst afar erfitt að finna innblástur fyrir lagasmíðina. 

Karlkyns strippari hefði ekki verið innblásturinn sem hefði virkað fyrir hann. Sagði hann það með fullri virðingu fyrir öllum karlkyns strippurunum í Eldborgarsal og salurinn skellti upp úr. Niðurstaðan hefði því orðið að semja fallegt lag, óháð myndinni, og er erfitt að halda öðru fram en það hafi tekist ansi vel. Í það minnsta hafa fjölmargir reynt að gera lagið að sínu með ábreiðum.

Fjórum sætum frá Ingu á þrettánda bekk í Eldborg sátu Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid. Eliza er eins og allir vita frá Kanada og kunni vel að meta frammistöðu landa síns. Þau heilsuðu upp á kappann að tónleikunum loknum og að sjálfsögðu var smellt af mynd.

Söngurinn hjá Adams og orkan í flutningnum var mjög flott. Gítarleikurinn var flottur þó hann væri ekki gallalaus. 

Píanóleikarinn Gary Breit sem studdi flutning Adams og hefur unnið með honum undanfarna tvo áratugi fór á kostum og gerði mikið fyrir tónleikana. 

Adams sagðist hafa sannfært foreldra sína um að verja peningum sem ætlaðir voru til að styrkja soninn til náms á sínum tíma í að kaupa píanó. Þúsund kanadískum dollurum.

„En hafið þið prófað að spila á svona græju?“ spurði Adams og benti á Steinway-flygilinn í Hörpu. 

Það væri ástæða fyrir því að Adams hefði haldið sig við gítarinn.

Ekkert uppklapp

Eftir um tveggja tíma flutning kvaddi Adams tónleikagesti, þakkaði fyrir sig og sagðist hlakka til að sjá alla í heitu laugunum, þeim sem Adams skellir sér í nakinn. Fólk klappaði og reiknaði með uppklappi sem er löngu orðið að reglu frekar en undantekningu á tónleikum. En ljósin kviknuðu og Adams kom ekki aftur. Sem var bara ágætt. Hann hafði spilað öll sín þekktustu lög og algjör óþarfi að fara í endurtekningar. Eflaust voru líka nokkrar þvagblöðrur sáttar að geta komist í var á salernum Hörpunnar eftir tveggja tíma veislu.

Tónleikagestir á leið í Eldborg í kvöld ættu að hafa nóg að hlakka til. Ekki er þó víst að hægt verði að kaupa boli úr smiðju Adams í kvöld því þeir seldust eins og heitar lummur í gærkvöldi, og seldust upp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.