Körfubolti

Luka öflugur og Lakers jafnaði ein­vígið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luka Doncic og félagar í Los Angeles Lakers komu sterkir til baka eftir tap á heimavelli í fyrsta leik.
Luka Doncic og félagar í Los Angeles Lakers komu sterkir til baka eftir tap á heimavelli í fyrsta leik. Getty/Katelyn Mulcahy

Los Angeles Lakers jafnaði einvígi sitt í úrslitakeppni NBA deildarinnar í körfubolta í nótt en bæði Indiana Pacers og Oklahoma City Thunder komust hins vegar í 2-0 í sínum einvígum í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Luka Doncic var með 31 stig, 12 fráköst og 9 stoðsendingar þegar Los Angeles Lakers vann 94-85 sigur á Minnesota Timberwolves. Timberwolves vann fyrsta leikinn en tveir fyrstu leikirnir fóru fram á heimavelli Lakers.

LeBron James bætti við 21 stigi, 11 fráköstum og 7 stoðsendingum og þá var Austin Reaves með 16 stig.

Julius Randle skoraði 27 stig fyrir Timberwolves og Anthony Edwards var með 25 stig.

Oklahoma City Thunder burstaði annan leikinn í röð á móti Memphis Grizzlies en liðið vann 19 stiga sigur í nótt, 118-99. Thunder er 2-0 í leikjum og +70 í stigum í einvíginu.

Shai Gilgeous-Alexander skoraði 27 stig, Jalen Williams var með 24 stig og Chet Holmgren skoraði 20 stig, tók 11 fráköst og varði 5 skot. Jaren Jackson Jr. skoraði 26 stig fyrir Memphis og Ja Morant var með 23 stig.

Indiana Pacers er 2-0 yfir á móti Milwaukee Bucks eftir 123-115 sigur í nótt. Tyrese Haliburton var frábær með 21 stig og 12 stoðsendingar en Pascal Siakam var atkvæðamestur með 24 stig og 11 fráköst.

Giannis Antetokounmpo bauð upp á svakalegar tölur, 34 stig, 18 fráköst og 7 stoðsendingar, en það dugði ekki til. Bobby Portis kom með 28 stig og 12 fráköst af bekknum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×