Innlent

Eva Georgs ráðin dag­skrár­stjóri sjón­varps hjá RÚV

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eva Georgs Ásudóttir var sjónvarpsstjóri Stöð 2 en tekur nú við ábyrgðarstöðu hjá RÚV.
Eva Georgs Ásudóttir var sjónvarpsstjóri Stöð 2 en tekur nú við ábyrgðarstöðu hjá RÚV. Eyþór

Eva Georgs Ásudóttir var í dag ráðin í starf dagskrárstjóra sjónvarps RÚV úr hópi 28 umsækjenda. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef RÚV. Eva starfaði í tvo áratugi hjá Stöð 2 og síðustu árin sem sjónvarpsstjóri.

Á vef RÚV kemur fram að Eva hafi í um fimmtán ára verið í stjórnunarhlutverki hjá Stöð 2. Hún hafi gegnt lykilhlutverki í þróun og stefnumótun sjónvarpsefnis á Íslandi og búi yfir víðtækri reynslu af dagskrársetningu, framleiðslu, efnisinnkaupum og samstarfi við innlenda og erlenda framleiðendur.

Hjá Sýn hafi hún sem sjónvarpsstjóri leitt 75 manna teymi og borið ábyrgð á rekstri, stefnumótun og dagskrá Stöðvar 2, Stöðvar 2+ og Stöðvar 2 Sport. Áður var hún meðal annars framleiðslustjóri innlendrar þáttagerðar hjá Stöð 2, framleiðslustjóri fréttastofu og veitti allri sjónvarpsframleiðslu 365 miðla forstöðu auk þess að vera yfirframleiðandi stórra verkefna á borð við Idol.

Eva er með menntun á sviði stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands ásamt meistaragráðu í verkefnastjórnun (MPM) frá Háskólanum í Reykjavík.

„Dagskrárstjóri sjónvarps ber ábyrgð á mótun og innleiðingu dagskrárstefnu RÚV í samræmi við hlutverk miðilsins í almannaþágu. Hann leiðir dagskrársvið og tryggir faglega framleiðslu og innkaup á fjölbreyttu innlendu og erlendu efni auk þess að hafa yfirumsjón með dagskrá fyrir börn og ungmenni og íþróttaumfjöllun. Einnig felur starfið í sér samstarf við innlenda og erlenda efnisframleiðendur, mannauðsstjórnun og áætlanagerð.“

Á vef RÚV segir að leitað hafi verið að öflugum leiðtoga með mikla þekkingu á dagskrárefni og sjónvarpsframleiðslu og innsýn í íslenskt fjölmiðlaumhverfi ásamt farsælli stjórnunarreynslu og getu til að móta og hrinda stefnu í framkvæmd.

Í ráðningarferlinu hafi verið staðfest að Eva uppfylli vel þessar kröfur sem og aðrar sem gerðar hafi verið til starfsins. 

„Hún býr yfir mikilli faglegri og stjórnunarlegri reynslu úr fjölmiðlum, hefur skýra sýn á dagskrárstefnu og mikla hæfni í að leiða skapandi og öflugt starf með fagmennsku að leiðarljósi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×