Körfubolti

Stórleikur LeBron James dugði ekki Lakers og Celtics töpuðu líka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James og félagar í Los Angeles Lakers er aftur komnir undir í einvíginu á móti Minnesota Timberwolves.
LeBron James og félagar í Los Angeles Lakers er aftur komnir undir í einvíginu á móti Minnesota Timberwolves. Getty/Keith Birmingham

Þetta var ekki gott föstudagskvöld fyrir stuðningsmenn Los Angeles Lakers og Boston Celtics í úrslitakeppni NBA deildarinnar í körfubolta en staðan er þó verri hjá liðsmönnum Lakers. Minnesota Timberwolves, Orlando Magic og Milwaukee Bucks fögnuðu öll sigri í nótt.

Minnesota Timberwolves er komið 2-1 yfir á móti Los Angeles Lakers eftir 116-104 heimasigur í nótt. Jaden McDaniels skoraði 30 stig og Anthony Edwards var frábær með 29 stig, 8 fráköst og 8 stoðsendingar. Úlfarnir unnu síðustu fimm mínútur leiksins 13-1.

LeBron James átti stórleik en það dugði ekki. James setti niður fimm þrista og endaði leikinn með 38 stig og 10 fráköst. Austin Reaves skoraði 20 stig en Luka Doncic hitti aðeins úr 2 af 8 þriggja stiga skotum sínum og endaði með 17 stig og 8 stoðsendingar.

Orlando Magic vann 95-93 sigur á Boston Celtics í Orlando en meistararnir frá Boston kvörtuðu undan dómgæslunni eftir leik. Boston vann tvo fyrstu leikina á heimavelli sínum og er því 2-1 yfir.

Franz Wagner var frábær hjá Orlando með 32 stig, 7 fráköst og 8 stoðsendingar en Paolo Banchero skoraði 29 stig. Jayson Tatum var með 36 stig fyrir Boston og Jaylen Brown skoraði 19 stig.

Milwaukee Bucks minnkaði muninn i 2-1 í einvíginu á móti Indiana Pacers með 117-101 heimasigri. Giannis Antetokounmpo skoraði 37 stig, tók 12 fráköst og gaf 6 stoðsendingar fyrir Bucks en Gary Trent Jr. var einnig með 37 stig. Trent hitti úr 9 af 12 þriggja stiga skotum sínum í leiknum.

Pascal Siakam skoraði 28 stig fyrir Indiana, Aaron Nesmith var með 18 stig og Tyrese Haliburton skoraði 14 stig og gaf 10 stoðsendingar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×