Íslenski boltinn

Sjáðu markaveislu KR og rot­högg KA gegn FH

Sindri Sverrisson skrifar
Eiður Gauti Sæbjörnsson fagnar fimmta marki KR gegn ÍA í gærkvöld.
Eiður Gauti Sæbjörnsson fagnar fimmta marki KR gegn ÍA í gærkvöld. vísir/Jón Gautur

KR-ingar slógu upp veislu í Laugardalnum í gær þegar þeir völtuðu yfir Skagamenn, 5-0. KA skoraði sigurmark nokkrum sekúndum eftir að FH jafnaði og Breiðablik kom sér yfir Vestra á toppinn. Mörkin úr Bestu deild karla í gær má nú sjá á Vísi.

KR hefur vakið aðdáun fyrir skemmtilegan fótbolta það sem af er leiktíð en þurft að bíða eftir fyrsta sigrinum, eftir jafntefli í fyrstu þremur leikjunum. Sigurinn kom í gær og hann var stór, með tveimur mörkum frá fyrirliðanum Aroni Sigurðarsyni og einu frá Luke Rae, Matthias Præst og Eiði Gauta Sæbjörnssyni.

KA vann einnig sinn fyrsta sigur, 3-2, þegar liðið lagði FH sem situr á botni deildarinnar með aðeins eitt stig eftir fjórar umferðir. 

Eftir mörk úr óvæntum áttum, frá Hrannari Birni Steingrímssyni og Böðvari Böðvarssyni, og sitt hvort sjálfsmarkið var staðan orðin jöfn á 82. mínútu. En strax eftir jöfnunarmark FH náði Bjarni Aðalsteinsson að koma boltanum í netið og tryggja KA sigur.

Á Ísafirði missti Vestri toppsætið í hendur Íslandsmeistara Breiðabliks þar sem Höskuldur Gunnlaugsson kom á ný til bjargar og skoraði eina mark leiksins, á 72. mínútu.

Blikar fengu reyndar einnig vítaspyrnu en Guy Smit varði hana frá Tobias Thomsen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×