Körfubolti

Ár­menningar einum sigri frá sæti í Bónus deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ármenningar eru aðeins einum sigri frá því að tryggja félaginu sæti í úrvalsdeildinni í fyrsta sinn í 44 ár.
Ármenningar eru aðeins einum sigri frá því að tryggja félaginu sæti í úrvalsdeildinni í fyrsta sinn í 44 ár. @armannkarfa

Ármann vann í kvöld þriðja leikinn í einvíginu við Hamar um laust sæti í Bónus deild karla í körfubolta á næstu leiktíð.

Ármann er því 2-1 yfir í einvíginu en vinna þarf þrjá leiki til að komast upp í deild þeirra bestu.

Ármann vann leikinn á endanum með fjögurra stiga mun, 106-102, en heimamenn voru nálægt því að kasta frá sér sigrinum í fjórða leikhlutanum.

Ármenningar unnu fyrsta leikinn afar sannfærandi (125-100) en Hamarsmenn svöruðu síðan með stórsigri í öðrum leiknum í Hveragerði, 122-103.

Það stefndi í annan stórsigur heimaliðsins í kvöld því Ármenningar voru í miklu stuði fram eftir leik. Ármenningar unnu fyrsta leikhlutann 37-22 og voru síðan 22 stigum yfir í hálfleik, 66-44.

Hamarsmenn gáfust ekki upp og tókst að minnka muninn niður í eitt stig í lokin. Ármenningum tókst hins vegar að standast þetta magnað áhlaup Hvergerðinga og unnu gríðarlega dýrmætan sigur. Það hefði verið slæmt að fara undir í Frystikistuna þar sem Hamarsmenn eru gríðarlega sterkir.

Hamar var síðast í úrvalsdeildinni 2024 en Ármenningar hafa ekki verið þar í 44 ár (1981).

Næsti leikur fer fram í Hveragerði á föstudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×