Körfubolti

Curry niður­brotinn í sigri og mögnuð endur­koma Pacers

Sindri Sverrisson skrifar
Indiana Pacers fögnuðu hádramatískum endurkomusigri gegn Cleveland Cavaliers í gærkvöld.
Indiana Pacers fögnuðu hádramatískum endurkomusigri gegn Cleveland Cavaliers í gærkvöld. Getty/Jason Miller

Indiana Pacers eru komnir í 2-0 í einvíginu við Cleveland Cavaliers sem enduðu á toppi austurdeildar NBA-deildarinnar, eftir þriggja stiga sigurkörfu Tyrese Haliburton. Golden State Warriors misstu Stephen Curry meiddan af velli í sigri á Minnesota Timberwolves.

Hinn 37 ára Curry meiddist í læri í fyrri hálfleik, í 99-88 sigri Warriors í gær. Hann virtist í fyrstu ætla að reyna að halda áfram en bað svo um að fara af velli.

„Við gerum klárlega ekki ráð fyrir að hann verði til taks í leik tvö en við vitum það ekki enn. Þegar um meiðsli í læri er að ræða þá er erfitt að ímynda sér að hann spili,“ sagði Steve Kerr, þjálfari Warriors.

„Ég talaði við hann í hálfleik, hann er algjörlega niðurbrotinn. Strákarnir fylltu í skarðið og spiluðu frábæran leik en við finnum allir til með Steph. Þetta er hins vegar hluti af leiknum. Menn meiðast og við höldum áfram,“ sagði Kerr.

Buddy Hield, Jimmy Butler og Draymond Green sáu um að skora stigin í fjarveru Curry og gerðu samtals 62 stig.

Tuttugu stigum undir en unnu í blálokin

Cleveland Cavaliers unnu deildarkeppnina austanmegin en eru komnir í erfiða stöðu eftir sigurþrist Haliburton í gær, í leik sem endaði 120-119.

Pacers voru undir í gegnum allan leikinn eða þar til í fjórða leikhluta sem þeir unnu með fimmtán stiga mun, 36-21. Cavaliers höfðu um tíma náð tuttugu stiga forskoti en það hvarf allt saman á endanum.

Aaron Nesmith og Myles Turner voru stigahæstir Pacers með 23 stig hvor en Haliburton skoraði 20.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×