Körfubolti

„Ég fékk að gera ó­tal mis­tök og læra af þeim“

Aron Guðmundsson skrifar
Daníel Andri Halldórsson er orðinn þjálfari KR.
Daníel Andri Halldórsson er orðinn þjálfari KR. KR

Daníel Andri Halldórs­son er nýr þjálfari kvenna­liðs KR í körfu­bolta og fær það verk­efni að festa liðið í sessi í efstu deild. Hann tekur næsta skref á sínum ferli með miklu sjálfsöryggi eftir að hafa lært mikið á stuttum ferli til þessa. 

Daníel tekur við liðinu af Herði Unn­steins­syni sem kom KR aftur upp í efstu deild á nýaf­stöðnu tíma­bili en lét nýverið af störfum.

„Kominn tími á það hjá þessum hóp“

Daníel hefur undan­farin ár starfað sem þjálfari upp­eldis­félags síns Þór frá Akur­eyri með góðum árangri. Liðið var endur­vakið fyrir fjórum árum síðan og undir stjórn Daníels tryggði það sér sæti í efstu deild á sínum tíma, festi sig þar í sessi og komst í bikarúr­slit í fyrra og varð í ár meistari meistaranna.

„Mér finnst bara eins og það hafi verið kominn tími á að ég myndi prófa eitt­hvað nýtt. Bæði fyrir sjálfan mig en líka fyrir mitt upp­eldis­félag líka. Það þarf oft að breyta til og breytingar geta oft verið mjög góðar og ég held að hópurinn heima, stjórnin og allir muni græða á því að það komi ein­hver nýr, ferskur og öðru­vísi inn þar.“

Og sem þjálfari KR tekur hann skrefið inn í félag með mikla sögu.

„Ég er að taka við mjög flottum, ungum og efni­legum leik­manna­hópi af Herði Unn­steins­syni sem hefur gert alveg gríðar­lega flotta hluti með þennan hóp. Kjarninn er góður, upp­aldar KR stelpur og það verður gaman að sjá þær feta sín fyrstu spor í betri deild. Ég held að það sé alveg kominn tími á það hjá þessum hóp.“

„Svona félag á að vera með lið í efstu deild, byrjum á að festa liðið svolítið þar en það er ekki langt í að við munum gera okkur lík­leg til að keppa. Það er ákveðinn andi inn í þessu íþrótta­húsi og á þessu félags­svæði. Geggjað hverfi og söguríkt félag. Stór­veldi, stærsta félag á Ís­landi og æðis­legt að fá að vera hluti af því á næsta tíma­bili.

Mér líður mjög vel með þetta. Þetta er flott félag að ganga inn í og það er strax tekið vel á móti mér, það er mikið af góðu fólki í kringum þetta félag og ég er mjög spenntur að vinna með því í kringum þetta félag.“

Ein­hverjar breytingar eru í far­vatninu á leik­manna­hópi KR milli tíma­bila.

„Það verða gerðar ein­hverjar breytingar já. Við kíkjum aðeins á ís­lenska markaðinn og reynum að búa til mjög sam­keppnis­hæft um­hverfi á æfingum þannig að við náum árangri hraðar, gæðin á æfingu verða betri og meiri. Byrjum á því og svo er það upp á stelpurnar sjálfar komið að toga hvor aðra áfram í að ná enn frekari árangri.“

Daníel er ungur að árum, aðeins 29 ára gamall, og tók sín fyrstu skref sem meistara­flokks þjálfari hjá Þór og býr nú að góðri reynslu.

„Kosturinn við að taka þessi skref hjá upp­eldis­félagi sínu var að ég fékk að gera ótal mistök og læra af þeim sem meistara­flokksþjálfari og í kringum meistara­flokks starfið. Ég hef lært mikið á stuttum meistara­flokks þjálfara ferli og get þá tekið næsta skref með miklu sjálfsöryggi og veit nákvæm­lega hvað ég hef fram að færa.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×