Fótbolti

Aron Einar tók þátt í að binda endi á langa bikarbið Al-Gharafa

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson hefur unnið Emír-bikarinn í tvígang á ferli sínum í Katar.
Aron Einar Gunnarsson hefur unnið Emír-bikarinn í tvígang á ferli sínum í Katar. getty/Noushad Thekkayil

Al-Gharafa, sem Aron Einar Gunnarsson leikur með, varð í gær Emír-bikarmeistari eftir sigur á Al Rayyan, 1-2, í úrslitaleik.

Aron Einar lék allan leikinn í vörn Al-Gharafa. Liðið byrjaði leikinn af miklum krafti og náði forystunni strax á 4. mínútu þegar Ferjani Sassi skoraði. Á 18. mínútu jók Joselu, fyrrverandi framherji Real Madrid, svo muninn í 0-2.

Roger Guedes minnkaði muninn fyrir Al Rayyan úr vítaspyrnu á 50. mínútu og eftir rúman klukkutíma fékk Seydou Sano svo rauða spjaldið. Aron Einar og félagar kláruðu leikinn því manni færri.

Þeim tókst að halda út og fögnuðu sigri, 1-2, og Emír-bikarnum í fyrsta sinn í þrettán ár.

Þetta er í annað sinn sem Aron Einar vinnur þessa keppni en hann gerði það einnig með Al Arabi fyrir tveimur árum.

Aron Einar gekk í raðir Al-Gharafa í september og framlengdi samning sinn við félagið á dögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×