Körfubolti

Náfrændurnir bestir en Thunder þarf bara einn sigur enn

Sindri Sverrisson skrifar
Shai Gilgeous-Alexander í viðtali efitr magnaða frammistöðu sína í nótt.
Shai Gilgeous-Alexander í viðtali efitr magnaða frammistöðu sína í nótt. Getty/David Berding

Oklahoma City Thunder hafði betur í spennuleik gegn Minnesota Timberwolves í nótt, 128-126, og er nú 3-1 yfir í einvígi liðanna í úrslitum vesturdeildar NBA-deildarinnar í körfubolta. Náfrændur voru stigahæstir í liðunum.

Minnesota minnkaði muninn í 123-121 þegar 23 sekúndur voru eftir og við tók mikil vítabarátta í lokin. Nickeil Alexander-Walker braut á þessum kafla tvívegis á frænda sínum, Shai Gilgeous-Alexander, en sá síðarnefndi stóðst álagið vel á vítalínunni og það skilaði sigri.

Gilgeous-Alexander og Alexander-Walker þekkja það afar vel að kljást í körfubolta en pabbi Gilgeous-Alexander og mamma Alexander-Walker eru systkini. Þeir ólust upp í aðeins tuttugu mínútna fjarlægð hvor frá öðrum, í Toronto í Kanada, og léku sér oft saman ásamt Thomasi, yngri bróður Shai.

Í nótt voru frændurnir í aðalhlutverkum því Gilgeous-Alexander skoraði 40 stig fyrir Thunder, átti 10 stoðsendingar og tók 9 fráköst. 

Alexander-Walker átti ekki alveg sama stórleik en endaði stigahæstur hjá Timberwolves með 23 stig, gaf 6 stoðsendingar og tók 4 fráköst.

„Hann var virkilega góður í kvöld,“ sagði Gilgeous-Alexander um frænda sinn og hélt áfram: 

„Manni fannst hann varla klikka á skoti. Það kemur mér ekki á óvart því ég veit hvernig körfuboltamaður hann er. Hann getur alltaf átt svona leiki. Virkilega góður körfuboltamaður, með frábæra tilfinningu og hæfileika. Það er bara tímaspursmál hvenær hann springur,“ sagði MVP-leikmaðurinn og bætti við:

„Það var ofurgaman að glíma við hann, á þessu stigi, hálfan leikinn fannst manni. Stundum hafði hann betur og stundum ég. Þetta er eitthvað sem okkur hefur dreymt um alla ævi. Það er klikkað að það skuli vera að gerast.“

Thunder getur núna tryggt sér sæti í úrslitum NBA-deildarinnar með sigri á heimavelli annað kvöld. Bein útsending hefst á Stöð 2 Sport 2 klukkan hálfeitt. Í kvöld eru það hins vegar Indiana Pacers og New York Knicks sem mætast og hefst útsendingin á miðnætti.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×