Fótbolti

Að minnsta kosti 57 mark­til­raunir í sögu­legri endur­komu

Siggeir Ævarsson skrifar
Leik- og stuðningsmenn HJK fögnuðu vel og innilega í leikslok
Leik- og stuðningsmenn HJK fögnuðu vel og innilega í leikslok Twitter@hjkhelsinki

HJK frá Helsinki bauð upp á ótrúlega frammistöðu í gær þegar liðið lagði Runavík frá Færeyjum 5-0 í forkeppni Sambandsdeildar Evrópu en HJK átti hvorki fleiri né færri en 57 marktilraunir í leiknum.

Runavík vann fyrri leikinn 4-0 en átti aðeins þrjár marktilraunir í leiknum í gær. HJK varð að skora í það minnsta fjögur mörk til að jafna einvígið en fjórða markið kom ekki fyrr en á 95. mínútu og sigurinn kom svo í framlengingu.

57 marktilraunir hljómar eins og tölfræði úr FIFA tölvuleiknum á auðveldustu stillingu en með þessari endurkomu kemst HJK í fámennan hóp liða sem hefur komið til baka í Evrópukeppni eftir að hafa tapað fyrri leik í einvígi með fjórum mörkum en aðeins fimm lið hafa afrekað þetta áður.

Að lokum má geta þess að fjöldi marktilrauna HJK í leiknum er nokkuð á reiki en vefsíða Knattspyrnusambands Evrópu segir þær hafa verið 57 meðan að hæsta talan sem nefnd hefur verið er 60.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×