Gagnrýni

Vók Ofur­menni slaufað

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Ofurmennið þreytir ákveðna píslargöngu í nýjustu mynd James Gunn.
Ofurmennið þreytir ákveðna píslargöngu í nýjustu mynd James Gunn.

Ofurmennið Kal-El er snúinn aftur og hefur sjaldan verið jafn teiknimyndasögulegur og skrípó. Samt þarf hann að glíma við slaufun, auðjöfur sem kaupir sér umræðuna og þjóð sem hernemur nágrannaríki. Myndin er út um allt en samt með hjartað á réttum stað.

Í þessari áttundu mynd um kappann þarf Ofurmennið að eiga við auðjöfurinn Lex Luthor meðan Clark Kent deitar kollega sinn á blaðinu Daily Planet, Lois Lane. Við sögu koma ýmsar furðuverur, hernámsþjóðin Boravia og aðrar ofurhetjur í Metropolis-borg.

Superman er leikstýrt af James Gunn sem skrifar einnig handritið. David Corenswet leikur Ofurmennið/Clark Kent, Rachel Brosnahan leikur blaðamanninn Lois Lane og Nicholas Hoult leikur Lex Luthor. Auk þeirra fara Nathan Fillon, Isabel Merced, Edi Gathegi og Skyler Gisondo með hlutverk í myndinni.

Ofurmennið markar upphaf nýs kvikmyndaheims DC Studios sem er ætlað að leika eftir velgengni Marvel síðustu ár. Henni verður fylgt eftir með Ofurstúlkunni (e. Supergirl) sem kemur út á næsta ári.

Ofurmennið er sýnd í Sambíóunum, Smárabíó og Laugarásbíó um þessar mundir.

Ofurhetjan bjargar okkur

Síðustu fimmtán ár hafa ofurhetjumyndir tekið Hollywood kverkataki og stúdíóið Marvel verið ráðandi. Útgáfa Iron Man (2008) markaði upphaf kvikmyndaheims Marvel sem byggði á skotheldri formúlu: Gefa út eina til tvær myndir á ári, viðhalda samhangandi þræði og enda þráðinn á stórri lokamynd.

Robert Downey Jr. var algjör gullkálfur fyrir Marvel. Nú er búið að ráða hann sem Doktor Doom fyrir næstu mynd um Hefnendurna.

Formúlan virkaði og milljarðarnir streymdu í kassann. En formúlan varð súr, áhorfendur fundu fyrir ofurhetjuleiða og floppunum tók að fjölga.

Á þessu sama tímabili hafði DC gengið illa að halda í við sinn helsta keppinaut, Marvel. En um leið og dala tók hjá Marvel ákvað DC að herma eftir formúlunni. Lausnin var krækja í leikstjórann James Gunn frá Marvel og bjóða honum giggið.

Gunn var þá búinn að leikstýra tveimur myndum um Verndara Vetrarbrautarinnar en var rekinn frá Disney 2018 fyrir þriðju myndina. Gömul óviðeigandi tíst Gunn um nauðganir og helförina höfðu verið grafin upp og farið fyrir brjóstið á forsvarsmönnum Disney. Brottrekstrinum var mótmælt, Gunn baðst afsökunar og Disney réði hann aftur ári síðar.

En sambandið virtist hafa súrnað til muna. Seinka þurfti framleiðslu þriðju myndarinnar því Gunn hafði tekið að sér að leikstýra endurgerð Suicide Squad (2021) fyrir DC og bauðst í kjölfarið forstjórastaða hjá DC Studios. Gunn kláraði þriðju myndina um Verndara vetrarbrautarinnar en sagði svo skilið við Marvel.

En hver er þessi James Gunn, maðurinn sem á að skapa nýjan kvikmyndaheim fyrir DC?

Stilla úr Tromeó og Júlíu eftir Gunn.

Gunn byrjaði ferilinn sem handritshöfundur hjá Troma Entertainment, sem sérhæfði sig í ódýrum blóðugum B-myndum, þar sem hann skrifaði sína fyrstu mynd, Tromeo and Juliet (1996). 

Eftir það vann hann sjálfstætt, skrifaði handritin að Scooby Doo (2002), Scooby Doo: Monsters Unleashed (2004) og að uppvakningamyndinni Dawn of the Dead (2004).

Rætur Gunn liggja því í B-myndum, hryllingi og fjölskylduvænum hasar. Fyrsta skref Gunn út í leikstjórn var hryllingskómedían Slither (2006) og henni fylgdi hann eftir með svörtu kómedíunni Super (2010). Þær tvær og reynsla hans af bransanum voru nóg til að fá sénsinn hjá Marvel.

Plakatið fyrir skrímslamyndina Slither og Rainn Wilson í hlutverki Frank Darbo í biksvörtu kómedíunni Super.

Myndir Gunn um Verndara vetrarbrautarinnar eru skemmtileg blanda af hasar, gríni og sæfæ. Merkilegast var hve sterk höfundareinkenni Gunn voru innan þess þrönga ramma sem Marvel gefur leikstjórum sínum.

Höfundareinkenni Gunn birtast hvað helst í sterkri hópadýnamík (Scooby Doo, Dawn of the Dead og Suicide Squad), úrhrökum sem ýtt út í sviðsljósið og groddaralegum húmor sem er notaður óspart.

Þessi einkenni gerðu að verkum að Gunn skein sem leikstjóri þríleiksins um Verndara vetrarbrautarinnar. En hvernig rímar stíllinn við Ofurmennið, gullinsnið hinnar björtu, góðhjörtuðu og ofurmannlegu hetju?

Hér fyrir neðan verður kafað í myndina og því þarf að spilla vissum atriðum. Lesendur sem vilja forðast slíkt skulu hoppa yfir í niðurstöðurnar.

Getur Ofurmennið stöðvað þjóðarmorð?

Fyrir frumsýningu myndarinnar lýsti Gunn því yfir að það væri þrennt sem áhorfendur þyrftu aldrei að sjá aftur: köngulóna stinga Peter Parker, Bruce Wayne horfa upp á foreldra sína myrta og smábarnið Kal-El fljúga til Jarðar meðan plánetan Krypton springur.

Superman klæðir sig í gallann meðan púki úr annarri vídd lýsir upp himininn.

Gunn hoppar yfir upprunasöguna og byrjar í miðjum klíðum. Ofurmennið er orðinn fræg hetja, hefur aflað sér erkióvinar í auðkýfingnum Lex Luthor (Hoult) og er nýlega búinn að stöðva hernám Boraviu í smáríkinu Jarihanpúr. Á sama tíma er blaðamaðurinn Clark Kent (Corenswet), hans opinbera sjálf, byrjaður að deita Lois Lane (Brosnahan) en það er aðeins farið að hrikta í stoðum sambandsins.

Nálgunin er hressandi, áhorfendur detta inn í fullskapaðan heim án þess að þurfa að fara í gegnum sömu gömlu upprunasöguna.

Ein besta sena myndarinnar kemur snemma þar sem Lois Lane tekur „viðtal“ við Ofurmennið um brot hans á alþjóðalögum með inngripi í stríði Boraviu við Jarhanpúr. Senan kemur frábærlega til skila dýnamíkinni milli Lane og Kent, reglum heimsins og siðferðislegum áttavita Ofurmennisins sem vill ekki sjá nokkra lífveru særða eða drepna.

Brosnahan og Corenswet eru ágæt saman sem Lois Lane og Clark Kent.

Hernámsþjóðin Boravia vekur strax hugrenningatengsl við Rússa/Ísraela meðan manni verður hugsað til Palestínu þegar smáríkið Jarhanpúr birtist. Eins í raunheimum má Ofurmennið ekki hlutast í deilunni þar sem Boravia er bandamaður Bandaríkjanna.

Að gefa hernáminu svona veigamikið hlutverk er djörf ákvörðun en úrvinnslan er takmörkuð. Fyrir utan stríðsátökin er þetta skrípó teiknimyndasöguheimur svo skilin verða óvenjuskörp. Þá er ekki kafað sérlega djúpt ofan í málið og það leyst á einfaldan máta.

Íbúar Jarhanpúr leita til Ofurmennisins eftir hjálp.

Þetta á við um önnur stærri átök í myndinni, vandræðin í sambandi Lane og Kent og afhjúpun Lex Luthor á Ofurmenninu. Gunn heldur mörgum boltum á lofti en nær ekki að sinna þeim nógu vel. Svo er erfitt að taka fyrir stærstu álitamál samtímans, hernám, slaufunarmenningu og áhrifamátt milljarðamæringa, um leið og maður reynir að vera léttur og hressandi.

Fyrir utan of marga þræði er tvennt sem plagar handritið. Annars vegar lýsa persónur því reglulega sem þær gera eða útskýra innra tilfinningalíf sitt. Við sjáum það, þú þarft ekki að segja okkur það! Hins vegar er Gunn óskaplega örlátur á brandara þó þeir séu góðir. Of oft dregur Gunn broddinn úr senum með því að brjóta þær upp með gríni.

Hin sjálfusjúka Eve er framan af máluð sem hefðbundin ljóska en er auðvitað flóknari en það.

Aukaleikarar skína á kostnað Ofurmennis

Tónn myndarinnar er bjartur og teiknimyndalegur. Segja má að Ofurmennið hér sé hálfgerð andstæða hins alvarlega Ofurmennis sem kemur fyrir í Man of Steel (2013) eftir Zack Snyder. Heimur Metropolis virkar sannfærandi með sína skæru liti og íbúa sem hafa vanist lífi með ofurhetjum.

Ritstjórn Daily Planet með Lois Lane, Jimmy Olsen og Cat Grant í forgrunni.

Gunn hrúgar inn karakterum, á dagblaðinu Daily Planet vinnur kvennabósinn Jimmy Olsen (Gisondo). Lex fylgja tveir ofur-skósveinar, Verkfræðingurinn og Ultramaðurinn, og í borginni starfar hetjuhópurinn Réttlætisgengið með Guy Gardner (Fillion), Hauksstúlkuna (Merced) og Herra Æðislegan (Gathegi) innanborðs.

Aukapersónurnar eru skemmtilegar og vel skrifaðar, sérstaklega skálarklippingarfíflið Guy Gardner og kvennabósinn Jimmy Olsen. Gunn er fær í að búa til sjarmerandi karaktera og fá þá til að skína. Á móti kemur að Gunn virðist fastur í sömu hópadýnamík og í Verndurum vetrarbrautarinnar þar sem hópurinn fær að skína. Ofurmennið situr á hakanum á meðan.

Réttlætisgengið reiðubúið í slaginn: Græna luktin Guy Gardner, Hauksstúlkan og Herra æðislegur.

Gunn leggur mikla áherslu á kjarnann í Ofurmenninu: hann er góður. Svo góður að hann minnir á Jesú eða Baldur hinn góða. 

Góðmennskan er bæði helsti kostur Ofurmennisins en líka akkilesarhæll því hann vill alltaf bjarga öllum. Gunn sýnir þetta myndrænt með því að láta hetjuna bjarga íkorna undan risavöxnu skrímsli og eiga í vandræðum með að kostnaðarmeta afleiðingar gjörða sinna.

Ofurmennið þarf að horfast í augu við góðmennsku sína og innri persónu þegar Lex Luthor afhjúpar skilaboð sem snúa að ætterni geimverunnar Kal-El: foreldrar hans sendu hann til Jarðar til að drottna yfir mannkyninu. Ofurmenninu er í kjölfarið slaufað (rétt eins og Gunn sjálfum!) og borgarbúar snúa baki við honum. 

Nicholas Hoult er mjög skemmtilegur sem hinn tryllingslegi og afbrýðisami Lex Luthor.

Slaufun er eins og hernámið risavaxið mál. Hér er hún þó aðallega notuð til að snúa hjólum sögunnar, koma Ofurmenninu á botninn, frekar en að kafa dýpra ofan í kjarna hetjunnar og afleiðingar slaufunarmenningar. 

Á endanum er málið leyst svo snyrtilega að manni finnst maður hálfpartinn svikinn. Sömuleiðis er heldur kjánalegt hvað Gunn er greinilega að skrifa um eigin slaufun, sem hafði í raun engar afleiðingar, og leggja það að jöfnu við píslargönguna sem Ofurmennið gengur í gegnum.

Corenswet selur hinn góðhjartaða Clark Kent nokkuð vel og það eru ágætis neistar milli hans og Brosnahan í hlutverki Lois. Skemmtilegasti karakter myndarinnar er þó Lex Luthor sem þjáist af svo mikilli afbrýðisemi að hann svífst einskis til að koma ólöglegu geimverunni Kal-El fyrir kattarnef. Hoult fangar vel trylling Luthor og botnlausa reiðina sem vellur upp úr honum.

Superman og Krypto horfa til jarðar frá tunglinu.

Niðurstaða:

Ofurmennið er skemmtileg, skrípó og dálítið misjöfn mynd. Ýmsir sénsar eru teknir en þeir eru of margir því það tekst ekki að vinna almennilega úr öllum þeim umfjöllunarefnum sem eru tekin fyrir.

Líkt og í fyrri myndum sínum tekst James Gunn að skapa lifandi heim fullan af sjarmerandi karakterum. Of oft vantreystir Gunn þó áhorfendum og lætur persónurnar mata áhorfendur með upplýsingum sem tekur mann út úr myndinni. 

David Corenswet er lágstemmdur en nokkuð sannfærandi sem hið góðhjartaða Ofurmenni. Hann fær hins vegar ekki alveg nógu mikinn tíma til að dýpka persónu sína því Gunn er of hrifinn af aukaleikurunum, Réttlætisgenginu og ritstjórninni á Daily Planet. Leikhópurinn er öflugur, Brosnahan, Fillion og Gathegi standa sig vel en Hoult er bestur sem skallinn Luthor.

Ofurmennið er með slakari myndum James Gunn sem þó er einn sá allra færasti í að aðlaga teiknimyndasögur að skjánum. Hugsanlega er það af því stíll hans hentar efniviðnum illa eða þá pressan reyndist einfaldlega of mikil. Þrátt fyrir það gefa ýmsir þættir myndarinnar góða von um það sem framundan er í kvikmyndaheimi DC.


Tengdar fréttir

Gamli er (ekki) alveg með'etta

Þegar best lætur líður manni eins og maður þeysist eftir brautinni á formúlubíl með öllum þeim hraða, hávæða og spennu sem því fylgir. Þegar farið er af brautinni líður manni eins maður sé að horfa á illa leikna auglýsingu með ómerkilegum persónum og klisjukenndu handriti.

Mömmustrákur skýtur uppvakningum ref fyrir rass

Bretland hefur lokast af frá meginlandi Evrópu. Flestallir hafa sýkst af ofstopafullri reiði en restin hefur lokað sig inni og þjáist af alvarlegri fortíðarþrá. Nei, ég er ekki að tala um Brexit-hrjáð Bretland nútímans heldur nýjustu mynd Danny Boyle þar sem 28 ár eru liðin frá því vírus breytti Bretum í óða uppvakninga og lagði landið í rúst.

Neista­laus trekantur leiðin­lega fólksins

Materialists er rómantísk gamanmynd sem fjallar um ástarþríhyrning hjónabandsmiðlara, ríks fjárfestis og fátæks leikara. Myndina skortir þó tvennt: gamanið og rómantíkina. Eftir stendur mynd um grunnhyggið, óspennandi og leiðinlegt fólk.

Tom Cruise hrasar á síðasta snúning

Síðasta ómögulega verkefnið líður fyrir látlaus endurlit til fyrri mynda, þvældan þráð og leikstjóra sem treystir ekki áhorfendum. Súperstjarnan Tom Cruise og magnaður seinni helmingur með bestu áhættuatriðum seríunnar bjargar myndinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.