Erlent

Danskur dýra­garður óskar eftir gælu­dýrum til að fóðra rán­dýrin

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Dýragarðurinn óskar meðal annars eftir kanínum.
Dýragarðurinn óskar meðal annars eftir kanínum. Getty

Dýragarðurinn í Álaborg býður nú upp á að fólk gefi garðinum gæludýr á borð við kanínur, hænur og naggrísi til að nota sem fóður fyrir rándýrin þeirra.

„Vissir þú að þú getur gefið minni gæludýrin þín í dýragarðinn í Álaborg?“ stendur í færslu á Facebook síðu dýragarðsins.

Í færslunni er óskað eftir heilbrigðum gæludýrum sem Danir þurfi að losa sig við af ýmsum ástæðum en ætlunin er að nýta þau sem fóður. Ekkert fari því til spillis og tryggi þetta næringu og vellíðan rándýranna. Í dýragarðinum búa meðal annars ljón, tígrisdýr og ísbirnir.

Óskað er sérstaklega eftir kanínum, hænum og naggrísum en einnig hestum og geta eigendur þeirra fengið skattafrádrátt gefi þeir hestana sína.

„Í dýragörðum berum við ábyrgð á að líkja eftir náttúrulegri fæðukeðju dýranna,“ segir einnig í færslu dýragarðsins.

Fólk bregst misvel við færslunni í athugasemdum hennar, sumir segja að frekar ætti að skilja dýrin eftir úti í skógi til að sjá um sig sjálf og annar furðar sig á því hversu friðsamlegur dauði það sé að vera étinn af rándýri. 

Andrea, starfsmaður dýragarðsins, svarar í athugasemd að öll dýrin séu aflífuð á eins skjótan og sársaukalausan hátt og hægt er áður en rándýrin fá tækifæri til að borða þau. 

Í frétt TV2 um málið segir að það sem af er ári hefur dýragarðinum borist 22 hestar, 137 kanínur, 53 hænur, 18 naggrísir og tólf þorskar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×