Viðskipti innlent

Trúa varla að tollahækkanirnar séu að skella á

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Ólafur Stephensen er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Ólafur Stephensen er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. Vísir/Sigurjón

Atvinnurekendur eiga erfitt með að trúa að Bandaríkjastjórn ætli að setja á fimmtán prósenta toll á íslenskar vörur að sögn framkvæmdastjóra félags þeirra. Hann hvetur þá til að flytja sem mest út til landsins áður en tollarnir skella á.

Ríflega sólarhringur er þar til boðuð tollahækkun Bandaríkjaforseta á íslenskar vörur upp á fimmtán prósent tekur gildi í Bandaríkjunum. Tilkynnt var um hækkunina nú um mánaðamótin og sagði utanríkisráðherra við það tækifæri að hún væri vonbrigði. Kallað hafi verið eftir samtali við bandarísk stjórnvöld. 

„Félagsmenn spyrja okkur, er þetta raunverulega að fara að bresta á núna? Síðasta auglýsta tollahækkun var tíu prósent og var frestað. Það er ekkert sem bendir til annars en fimmtán prósent tollar taki gildi á fimmtudaginn,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.

Hann hvetur félagsmenn sína sem flytja út vörur til Bandaríkjanna að bregðast við yfirvofandi tollahækkunum sem fyrst.

„Eina leiðin til að losna við þessa tolla er að koma vörunni í flutning fyrir hádegi á fimmtudag. Það þarf þá að afgreiða hana úr vöruhúsi í Bandaríkjunum fyrir 5. október næstkomandi. Það er eini glugginn sem menn hafa,“ segir Ólafur.

Krefjandi samningaviðræður fram undan

Boðað hefur verið fundar í utanríkismálanefnd Alþingis á fimmtudag vegna málsins. Ólafur býst við löngum og flóknum samningaumleitunum við bandarísk stjórnvöld.

„Bandaríkin munu væntanlega ekki vilja semja við okkur nema að íslensk stjórnvöld komi með gott tilboð. Það er ekkert einfalt í þessu umhverfi. Ég tel að það geti tekið tíma að ná niður þessum tollum.  Þetta verður erfitt og flókið. Það er ólíklegt að tollarnir fari niður fyrir tíu prósent sem virðist vera hið nýja gólf hjá bandarískum stjórnvöldum,“ segir Ólafur að lokum. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×