Körfubolti

Celtics festa þjálfarann í sessi

Árni Jóhannsson skrifar
Joe Mazzulla hefur staðið sig vel í starfi þjálfara Boston Celtics en verður án Jayson Tatum næsta vetur.
Joe Mazzulla hefur staðið sig vel í starfi þjálfara Boston Celtics en verður án Jayson Tatum næsta vetur. Harry How/Getty Images

Boston Celtics hefur tryggt sér þjónustu þjálfarans Joe Mazzula næstu árin. Liðið tilkynnti um þetta á samfélagsmiðlum í dag. Mazzula stýrði liðinu til NBA titilsins árið 2024 en liðið datt út gegn Indiana Pacers í úrslitakeppninni.

Ekki er nefnt hve langur samningurinn er en framkvæmdarstjóri félagsins, Brad Stevens, er ánægður með starfið sem Mazzula hefur innt af hendi. Stevens sagði meðal annars við USA Today að Mazzula skildi starfið og væri duglegur og að auki hafði hann skilað árangursríku starfi undanfarin ár. Þetta var þriðja tímabilið sem Mazzula var að klára og hefur liðið aldrei unnið færri en 57 leiki. Að meðaltali hefur Boston Celtics unnið 60 leiki þessi þrjú tímabil og einn titill hefur skilað sér í hús en það var sá 18. sem þetta fornfræga félag vinnur.

Mazzula er yngsti þjálfarinn sem hefur unnið NBA titilinn en hann var 36 ára þegar það hafðist. Boston er að ganga í gegnum tímabil breytinga og óvissu en Jayson Tatum, stærsta stjarna liðsins, meiddist illa og mun að öllum líkindum ekki spila fyrr en vel er liðið á næsta tímabil. Þá skipti liðið Jrue Holiday og Kristaps Porzingis frá sér en þeir skiptu sköpum þegar liðið varð meistari. 

Það að Boston semji við Mazzula og það til lengri tíma er tilraun til að viðhalda þeim góða árangri sem náðst hefur undanfarin tímabil. NBA deildin hefst 21. október næstkomandi og það verður fróðlegt að sjá hvernig Boston menn standa sig en það verða að öllum líkindum miklar kröfur gerðar til liðsins.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×