Fótbolti

Fékk flug­eld í punginn í  leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Juan Godoy fékk fyrsta stigs brunasár á lærunum og gat skiljanlega ekki klárað leikinn.
Juan Godoy fékk fyrsta stigs brunasár á lærunum og gat skiljanlega ekki klárað leikinn. @ gazzettadellosport

Það er greinilega ekkert grín að spila í bólivísku deildinni ef marka má það sem kom fyrir knattspyrnumanninn Juan Godoy.

Ófarir Godoy eru reyndar góð dæmisaga um það af hverju flugeldar eru og verða bannaðir á fótboltavöllum.

Juan Godoy spilar með liðinu The Strongest frá höfuðborginni La Paz sem var að spila á heimavelli á móti Blooming Santa Cruz.

Hann var afar óheppinn þegar hans eigin stuðningsmaður skaut flugeldi inn á völlinn og flugeldurinn endaði beint í Godoy.

Það sem meira er að Godoy fékk flugeldinn beint í punginn. Það verður þó að taka það fram að þetta var ekki eini flugeldurinn sem var sprengdur í lok leiksins þegar stuðningsmenn liðsins voru byrjaðir að fagna.

Þarna var komið fram í uppbótatíma og staðan var 3-2 fyrir The Strongest. Godoy var hetja sinna manna eftir að hann kom liði sínu 3-2 yfir á 76. mínútu leiksins.

Godoy steinlá skiljanlega eftir að flugeldurinn sprakk á hans viðkvæmasta stað og var seinna hjálpað af velli.

Hann fékk fyrsta stigs bruna á lærinu og það blæddi inn á vöðva. Hann allra heilagasta slapp hins vegar með skrekkinn.

Daniel Terrazas, forseti Strongest, gagnrýndi stuðningsmennina harðlega. „Þetta eru ekki stuðningsmenn. Þetta var bara morðtilraun,“ sagði Terrazas.

Það má sjá atvikið með því að fletta hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×