Innlent

Rann­saka á­sakanir á hendur ríkissátta­semjara

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Ástráður Haraldsson hefur starfað sem ríkissáttasemjari frá árinu 2023.
Ástráður Haraldsson hefur starfað sem ríkissáttasemjari frá árinu 2023. Vísir/Vilhelm

Félags- og húsnæðismálaráðuneytið rannsakar ásakanir á hendur Ástráði Haraldssyni ríkissáttasemjara um áreitni í skemmtiferð á vegum embættisins til Vestmannaeyja árið 2022.

Morgunblaðið birtir umfjöllun þess efnis í blað dagsins og hefur eftir heimildum að tveir starfsmenn embættisins hafi kvartað undan framferði Ástráðs í umræddri ferð, sem var farin þegar Ástráður starfaði sem verktaki hjá embættinu. Annar starfsmaðurinn hafi lagt fram formlega kvörtun.

Það mun hafa verið Aldís G. Sigurðardóttir, fyrrverandi sáttasemjari við embætti ríkissáttasemjara. 

Morgunblaðið hefur eftir heimildum að ásakanirnar varði ósæmilega hegðun þar sem Ástráður á að hafa yfir eðlileg mörk með óæskilegum snertingum. 

Strax í kjölfar ferðarinnar hafi hún fundað með Aðalsteini Leifssyni þáverandi ríkissáttasemjara og Elísabetu S. Ólafsdóttur, þáverandi skrifstofustjóra embættisins og lagt fram formlega kvörtun. 

Málið hvergi í gögnum embættisins

Ástráður lýsir atvikum þannig í samtali við Morgunblaðið að Aldís hafi komið að máli við hann og sagt að henni hafi þótt snerting hans á veitingahúsi í Vestmannaeyjum óþægileg. Hann hafi brugðist við með því að biðjast innilegrar afsökunar og hún tekið afsökunarbeiðninni vel.

Aðalsteinn Leifsson, þáverandi ríkissáttasemjari, hafi jafnframt rætt málið við hann og engin eftirmál orðið svo Ástráði sé kunnugt. 

Þá hefur blaðið eftir heimildum að auk ásakananna hafi ráðuneytið þá staðreynd til skoðunar að hvergi í skjalakerfum Ríkissáttasemjara sé nokkuð að finna um atvikið. Aðalsteini hafi sem sagt láðst að færa kvörtunina sjálfa og upplýsingar tengdar henni til bókar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×