Golf

Fór holu í höggi í beinni í sjón­varpinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heiðar Snær Bjarnason fagnar hér draumahöggi sínu i dag.
Heiðar Snær Bjarnason fagnar hér draumahöggi sínu i dag. Skjámynd/RÚV

Heiðar Snær Bjarnason átti líklegast högg dagsins á Íslandsmótinu í golfi sem stendur nú yfir á Hvaleyrarvelli í Hafnarfirði.

Heiðar náði nefnilega að fara holu í höggi á sautjándu holunni. Hann var á þriðja hring mótsins og hann náði þessu draumahöggi sínu þegar Ríkissjónvarpið var að sýna högg hans í beinni útsendingu í sjónvarpinu.

Heiðar var búinn að fá tvo skolla í röð og alls átta skolla á hringnum þegar kom að næstsíðustu holu hringsins. Erfiður hringur en verður alltaf sætur í minningunni hjá honum eftir svona ógleymanlegt högg.

Heiðar Snær er 21 árs gamall og úr Golfklúbbnum á Selfossi. Þetta er í þriðja sinn sem hann fer holu í höggi á ferlinum en hann notaði sexjárn. Hér fyrir neðan má sjá þetta ótrúlega högg.

Heiðar var á átta yfir pari eftir ásinn sinn. 

Sautjánda holan er 187 metrar og par þrjú hola. Heiðar náði frábæru höggi á móti vindinum beint á holu og kúlan fór beint ofan.

„Fullkomið högg,“ sagði Jón Júlíus Karlsson, sem er að lýsa Íslandsmótinu i sjónvarpinu.

„Aldrei spurning. Þvílíkt golfhögg hjá Heiðari Snæ,“ sagði Þorsteinn Hallgrímsson, sem lýsir með honum.

„Líklega er þetta í fyrsta sinn sem við sjáum holu í höggi í beinni útsendingu,“ sagði Jón Júlíus.

„Hér fyrir neðan má sjá lýsingu á sautjándu holunni á heimasíðu klúbbsins.

  • Hvaleyrarklettar
  • Sjórinn tekur glaður á móti öllum boltum sem fara vinstra megin við flöt hér. Flötin er löng og hallar að sjónum þannig að miðið er á hægri helming flatarinnar og láta landslagið bera boltann að holu. Hér skiptir vindátt öllu máli og getur breytt kylfuvalinu talsvert á milli daga eftir hvaðan blæs. Flötin er um 45 metrar að lengd og því skiptir lengdarstjórnun í púttunum miklu máli hér.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×