Körfubolti

Þjóð­verjar unnu Doncic lausa Slóvena

Árni Jóhannsson skrifar
Dennis Schröder brunar framhjá varnarmanni í átt að körfunni.
Dennis Schröder brunar framhjá varnarmanni í átt að körfunni. Uwe Anspach/Getty

Liðin sem leika á Evrópumeistaramótinu í körfuknattleik sem hefst í lok mánaðar eru á fullu í undirbúningi sínum. Þýskaland lagði Slóvena öðru sinni um helgina og Ísraelar lögðu Grikki af velli.

Þýskaland tók á móti Slóvenum í þetta sinn en liðin höfðu att kappi í Ljubljana á föstudaginn síðasta. Þá unnu Þjóðverjar 14 stiga sigur en í kvöld var hann 10 stig eða 80-70. Luka Doncic vantaði í lið Slóvena en stigahæstur þeirra var Gregor Horvat með 15 stig. Hjá Þjóðverjum var Dennis Schröder atkvæðamestur með 18 stig og sex stoðsendingar og Franz Wagner bætti við 17 stigum. Slóvenar leika með Íslandi í D riðli.

Ísraelar sem einnig eru með Íslandi í riðli á mótinu heimsóttu Grikki og rúlluðu þeim upp 75-58. Þetta var þriðji sigurleikur Ísraela í undirbúningi sínum en Grikkir eru enn að bíða eftir að Giannis Antetokounmpo komi til liðs við félaga sína.

Pólverjar, sem fengu slæm tíðindi fyrri í dag þegar Jeremy Sochan helltist úr lestinni, unnu Svíþjóð með tveimur stigum. Svíþjóð var sex stigum á eftir Póllandi þegar lítið var eftir og áttu ekki nógu mikinn tíma eftir tli að draga Pólverjana nær sér. Pólland heldur D riðilinn í Katowice og er því með Íslandi í riðli.

Þá lagði Serbía Kýpverja af velli nokkuð örugglega í Limassol 55-122. Serbarnir voru án Nikola Jokic og Bogdan Bogdanovic en það kom alls ekki að sök.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×