Innlent

Stefán Kristjáns­son er látinn

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Stefán var stoltur Grindvíkingur og barðist fyrir því að fá að halda áfram starfemi í bænum þegar honum var lokað.
Stefán var stoltur Grindvíkingur og barðist fyrir því að fá að halda áfram starfemi í bænum þegar honum var lokað. Einhamar/Vísir/Vilhelm

Stefán Þór Kristjánsson, útgerðarbóndi frá Grindavík, varð bráðkvaddur á heimili sínu í Kópavogi 12. ágúst, 61 árs að aldri.

Víkurfréttir greindu frá andláti hans í gær.

Stefán stofnaði útgerðarfyrirtækið Einhamar Seafood ásamt eiginkonu sinni, Söndru Antonsdóttur, í kringum aldamót og var fyrirtækið orðið á meðal öflugri smábátaútgerða landsins. Einhamar gerðist aðalstyrktaraðili körfuknattleiksdeildar Grindavíkur fyrir nokkrum árum og hafa þau hjónin verið einir dyggustu og öflugustu stuðningsmenn karla- og kvennaliðs Grindavíkur. 

Stefán var ötull baráttumaður fyrir því að íbúar Grindavíkur fengu að halda í daglegt líf í skugga jarðhræringa og eldgoss á Reykjanesskaga. 

Stefáni fannst aðgerðastjórn Almannavarna fara offari og barðist fyrir því að bærinn yrði opnaður á ný í byrjun síðasta árs. Í febrúar sama ár höfðaði Stefán mál á hendur íslenska ríkinu vegna banns við viðveru og starfsemi í Grindavík.

Stefán lenti í alvarlegu mótorhjólaslysi í Asíu í febrúar og var vart hugað líf fyrstu dagana en þrátt fyrir það tókst honum að jafna sig og ljúka endurhæfingu á Grensási. Stefán lætur eftir sig eiginkonu og fjögur börn, þrjú barnabörn og tengdabörn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×