Enski boltinn

Semenyo tjáir sig: „Fótboltinn sýndi sínar bestu hliðar þegar mest á reyndi“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Antoine Semenyo í baráttu við sinn gamla samherja hjá Bournemouth, Milos Kerkez.
Antoine Semenyo í baráttu við sinn gamla samherja hjá Bournemouth, Milos Kerkez. epa/ADAM VAUGHAN

Antoine Semenyo, leikmaður Bournemouth, hefur tjáð sig eftir að hann varð fyrir kynþáttafordómum gegn Liverpool, í upphafsleik tímabilsins í ensku úrvalsdeildinni í gær. Hann kveðst þakklátur fyrir stuðninginn sem hann hefur fengið.

Hlé var gert á leik Liverpool og Bournemouth eftir um hálftíma eftir að Semenyo benti dómaranum Anthony Taylor á að hann hefði orðið fyrir kynþáttafordómum. Semenyo benti Taylor á rasistann í stúkunni.

Semenyo kom mikið við sögu í leiknum en hann skoraði bæði mörk Bournemouth í 4-2 tapi. Liverpool komst í 2-0 en Semenyo jafnaði með tveimur mörkum áður en Englandsmeistararnir knúðu fram sigur undir lok leiks.

Í morgun tjáði Semenyo sig um atburði gærdagsins á X. Þar segir hann að hann muni alltaf muna eftir leiknum á Anfield, ekki vegna orða eins manns heldur fyrir samstöðuna og samhuginn sem honum var sýndur. 

Semenyo þakkaði samherjum sínum og mótherjum fyrir viðbrögð þeirra og sagði að dómarar leiksins hefðu tekið vel á málinu. Þá sagði hann að fótboltinn hefði sýnt sína bestu hlið þegar mest á reyndi.

„Að skora þessi tvö mörk var eins og að tala eina tungumálið sem skiptir raunverulega máli á vellinum. Þetta er ástæðan fyrir því að ég spila; fyrir augnablik eins og þessi, fyrir liðsfélaga mína og alla sem trúa á það sem hinn fallegi leikur getur verið,“ skrifaði Semenyo á X. Hann sagði jafnframt að stuðningurinn sem hann fengið og skilaboðin sem honum hafi borist hafi minnt hann á af hverju hann elskar fótboltann.

 Semenyo, sem er 25 ára landsliðsmaður Gana, kom til Bournemouth frá Bristol City fyrir tveimur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×