Innlent

Nú má heita Snjókaldur en ekki Latína

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Nýjasta nafnið sem komst í gegnum Mannanafnanefnd var Snjókaldur.
Nýjasta nafnið sem komst í gegnum Mannanafnanefnd var Snjókaldur. Vísir/Vilhelm

Mannanafnanefnd hefur samþykkt nafnið Snjókaldur í nýjum úrskurði. Hins vegar má ekki heita Latína né Væringi.

Í úrskurðinum kemur fram að almennt séu mannanöfn ekki lýsingarorð líkt og snjókaldur er heldur séu þau almennt leidd af nafnorðum. Þó séu til nöfn sem dregin eru af lýsingarorðum, líkt og fornu nöfnin Teitur, Bjartur og Ljótur. Ekki sé um að ræða virka nýmyndun í íslenskum mannanöfnum úr lýsingaorðum á síðari öldum. Hins vegar eru undantekningar, líkt og Mjallhvít og Dimmblá en það síðarnefnda var samþykkt 2002. 

Með þessum rökstuðningi var nafnið Snjókaldur samþykkt og fært á mannanafnaskrá.

Latína náði þó ekki í gegnum nefndina sem sagði að heiti tungumála hafi ekki verið notuð sem eiginnöfn og brjóti því gegn íslensku málkerfi. Væringi var einnig hafnað á þeim forsendum að það væri heiti þjóðflokks, líkt og Rómverji, Goti og Kelti. Heiti þjóða og þjóðflokka hafa ekki verið notuð sem nöfn og brjóta gegn íslensku málkerfi.

Allar þrjár beiðnirnar voru teknar fyrir á fundi Mannanafnanefndar þann 20. ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×