Körfubolti

Finnar byrjuðu EM á naumum sigri í Norðurlandaslag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Finninn Lauri Markkanen treður boltanum í körfuna í kvöld.
 Finninn Lauri Markkanen treður boltanum í körfuna í kvöld. EPA/KIMMO BRANDT

Evrópukeppnin í körfubolta fór af stað í dag með keppni í tveimur riðlum, A-riðli í Riga í Lettlandi og B-riðili í Tampere í Finnlandi.

Mesta spennan var í nágrannalag Finna og Svia (B-riðill). Finnarnir voru sterkari í lokin og fögnuðu að lokum þriggja stiga sigri, 93-90. Lauri Markkanen var frábær hjá Finnum með 28 stig en Edon Maxhuni skoraði 15 stig. Ludvig Håkanson skoraði 28 stig fyrir Svía en það var ekki nóg.

Portúgalir sem unnu nauman sigur á Íslendingum rétt fyrir mótið héldu Tékkum í 50 stigum i fyrsta leik (A-riðill) og unnu þá 62-50. Neemias Queta var öflugur með 23 stig, 18 fráköst og 4 varin skot en Rafael Lisboa skoraði 15 stig.

Tékkarnir hittu aðeins úr 29 prósent skota sinna í leiknum (16 af 55 og voru líka með fleiri tapaða bolta en körfur (19 á móti 16). Hræðileg byrjun hjá þeim á Evrópumótinu í ár.

Litáen, Þýskaland, Serbía og Tyrkland unnu öll örugga sigra í sínum leikjum.

Litáen vann 94-70 sigur á Bretum (B-riðill) þar sem Jonas Valanciunas var atkvæðamestur með 18 stig og 9 fráköst á tæpum 22 mínútum. Azuolas Tubelis skoraði 17 stig á 20 mínútum.

Þýskaland vann 106-76 sigur á Svartfjallalandi (B-riðill) þar sem Franz Wagner var neð 22 stig og leikstjórnandinn Dennis Schröder skoraði 21 stig. Andreas Obst hitti úr 5 af 6 þriggja stiga skotum og endaði með 18 stig.

Tyrkland vann 93-73 sigur á Lettlandi (A-riðill) þar sem liðið vann alla leikhlutana. Cedi Osman skoraði 20 stig fyrir Tyrki, Kenan Sipahi var með 19 stig en besti leikmaðurinn var Alperen Sengun með 16 stig, 8 fráköst og 7 stoðsendingar.

Serbía vann 98-64 stórsigur á Eistlandi. (A-riðill) Aleksa Avramović skoraði 13 stig en stórstjarnan Nikola Jokic var með 11 stig, 10 fráköst og 7 stoðsendingar á 23 mínútum. Hann skaut bara fjórum sinnum á körfuna í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×