Innherjamolar

Viska stofnar nýjan sjóð sem mun einkum fjár­festa í hluta­bréfum

Hörður Ægisson skrifar

Fjárfestingafélagið Viska Digital Assets hefur tekið upp nýtt nafn og heitir nú Viska sjóðir. Samhliða nafnabreytingunni kynnir félagið nýjan sjóð, Viska macro, sem byggir á heildarsýn félagsins á alþjóðlegu efnahagsumhverfi. Nýr sjóður leggur áherslu á fjárfestingar í tækni og hörðum eignum, þar sem uppgangur gervigreindarinnar og áhrif hennar á hagkerfi eru leiðandi stef í stefnu sjóðsins.

Viska hefur á undanförnum þremur árum rekið Visku rafmyntasjóð, sem hefur skilað jákvæðri ávöxtun á hverju ári frá stofnun, að því er segir í tilkynningu frá félaginu, en í fyrra nam ávöxtunin um 43 prósentum.

„Frá stofnun Visku höfum við lagt áherslu á að greina og skilja þær umbreytingar sem eiga sér stað í heimshagkerfinu. Rafmyntir og bálkakeðjutækni voru fyrsti fókusinn, en við höfum jafnframt bent á að ákveðnir eignaflokkar munu einnig njóta góðs af þessum breytingum. Þar má nefna eignir eins og gull og ákveðnar hrávörur auk annarra eigna sem við munum leggja áherslu á í nýjum sjóði,“ segir Daði Kristjánsson, framkvæmdastjóri Visku sjóða.

Viska macro verður eingöngu markaðssettur gagnvart fagfjárfestum og mun að meginstefnu til fjárfesta í hlutabréfum.

„Gervigreindin er stærsta tæknibylting okkar tíma og mun að okkar mati hafa víðtækari áhrif en tilkoma internetsins. Til þess þarf gríðarlega fjárfestingu í innviðum, orku og hrávörum sem mun að okkar mati skapa mikil tækifæri á næstu árum sem Viska macro ætlar sér að nýta,“ segir Guðlaugur Gíslason, fjárfestingastjóri Visku sjóða.


Tengdar fréttir

Verulegur munur í ávöxtun innlendra sjóða með virka stýringu síðustu þrjú ár

Verulegur munur er á gengi yfir tuttugu innlendra fjárfestingarsjóða sem beita virkri stýringu á undanförnum þremur árum, sem hafa einkennst af krefjandi markaðsaðstæðum hér á landi, en uppsöfnuð ávöxtun þess sjóðs sem hefur skarað fram úr er um 150 prósent á meðan þeir sjóðir sem reka lestina eru niður um ríflega 70 prósent. Stjórnendur rafmyntasjóðsins Visku telja að ný heimsmynd, sem muni meðal annars mótast af tollastríði og aukinni geópólitískri spennu, kalli á róttæka endurskoðun á eignasafni fjárfesta.

Kerfi alþjóða­við­skipta í upp­námi og erfitt að verð­leggja áhættu til lengri tíma

Ákvörðun Donald Trumps að efna til viðskiptastríðs við helstu viðskiptaþjóðir Bandaríkjanna með því að setja á sögulega háa innflutningstolla hefur sett fyrirkomulag alþjóðaviðskipta í uppnám, sem ekki sér fyrir endann á, og fjárfestar eiga afar erfitt með að verðleggja áhættu til lengri tíma, að sögn framkvæmdastjóra Visku. Vegna mikillar óvissu í efnahagsumhverfinu sé þetta ekki rétti tíminn til að „spila aggressífan leik“ en hann telur óhjákvæmilegt að Seðlabanki Bandaríkjanna bregðist við hratt versnandi efnahagshorfum með lækkun vaxta ásamt öðrum aðgerðum til að auka seljanleika á markaði og enginn eignaflokkur „hlaupi hraðar“ í þeim aðstæðum en rafmyntir.




Innherjamolar

Sjá meira


×