Körfubolti

„Vont er þeirra rang­læti. Verra er þeirra rétt­læti“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
FotoJet (37)

Ólafur Stefánsson, einn besti handboltamaður Íslands frá upphafi, hvetur hvern einasta íþróttamann hér á landi til að nota frammistöðu íslenska karlalandsliðsins í körfubolta sem innblástur til að leggja meira á sig.

Íslensku strákarnir máttu þola grátlegt tap gegn Pólverjum í þriðja leik liðsins á Evrópumótinu í körfubolta í kvöld. Íslenska liðið hefði gert virkilega vel í að snúa erfiðri stöðu sér í hag, en undir lok leiksins féll allt með pólska liðinu. Þar á meðal nokkrir dómar sem hefðu vægast sagt getað fallið hvorum megin sem er.

„Vont er þeirra ranglæti. Verra er þeirra réttlæti,“ ritaði Ólafur Stefánsson á Facebook-síðu sína eftir leikinn.

„Stundum þarf að vinna með níu til að vinna með tveimur. Ég legg það til að hver einasti þjálfari og íþróttamaður/-kona noti frábæra frammistöðu körfuboltalandsliðsins í kvöld og allt sem þarna gerðist síðustu mínúturnar sem innblástur í að leggja x meiri fókus og orku í allar sína æfingar hvort sem er í lyftingasalinn, í hvíld, í næringarvitund, í stuðningi við liðsfélaga og yngri iðkendur, í æfingar og aukaæfingar eða í vídeófundi,“ bætti Ólafur við.

Hann segir einnig að hver einasti íþróttamaður á Íslandi muni svara þessu mótlæti.

„Við erum ekki að taka svona hlutum þegjandi og svarið verður sýnt með reisn inni á vellinum næstu daga, vikur, mánuði og ár, hvort sem það er karfa, sund, íshokkí, fimleikar, skák eða önnur keppni í íslenska búningnum.“

Ólafur Stefánsson segir að mótlætinu verði svarað inni á vellinum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×