Íslenski boltinn

Þróttur lánar sex­tán ára strák til Inter Milan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björn Darri Oddgeirsson hefur æft með Inter Milan og nú hefur ítalska félagið fengið hann á láni með kauprétti.
Björn Darri Oddgeirsson hefur æft með Inter Milan og nú hefur ítalska félagið fengið hann á láni með kauprétti. Þróttur

Þróttur og ítalska stórliðið Inter Milan hafa gert með sér samkomulag um félagaskipti Björns Darra Oddgeirssonar til ítalska félagsins.

Björn Darri verður lánaður frá Þrótti fyrst um sinn, með kauprétti. Hann hefur áður farið til reynslu hjá Inter með góðum árangri og mun að svo stöddu æfa og leika með unglingaliðum félagsins.

Björn Darri er einn efnilegasti leikmaður Þróttar. Hann er fæddur árið 2009 og hefur þegar æft og leikið með meistaraflokki félagsins, þrátt fyrir að vera enn í 3. flokki.

Þá hefur hann verið fastamaður í yngri landsliðum Íslands og leikið fyrir U15, U16 og U17 ára liðin. Hann leikur jafnan með 2. flokki Þróttar en var einnig í sigurliði félagsins í 3. flokki á ReyCup í sumar ásamt fleiri framúrskarandi leikmönnum.

Samhliða þessum félagaskiptum munu Þróttur og Inter hefja formlegt samstarf og byggja ofan á þá tengingu sem hefur skapast á milli félaganna. Samstarfið mun fela í sér m.a. heimsóknir bæði leikmanna og þjálfara á milli félaganna. Þannig mun samstarfið skapa dýrmæt tækifæri til að miðla þekkingu á milli sín sem styrkir bæði félög.

„Á undangengnum árum höfum við eflt innra starf knattspyrnudeildarinnar gríðarlega, ekki síst unglingastarfið, ráðið úrvals þjálfara og innleitt metnaðarfulla stefnu í þjálfun og aðbúnaði. Þessi mikla vinna skilar sér smám saman og áhugi Inter Milan á Birni Darra sýnir að jafnvel eitt af stærstu félagsliðum Evrópu, horfir til Þróttar í leit að leikmanni. Fyrir okkur er það mikil viðurkenning, vonandi bara sú fyrsta af mörgum. Við óskum að sjálfsögðu Birni Darra og fjölskyldu hans til hamingju með þennan áfanga og velgengni í leik og starfi í Mílanó,“ sagði Kristján Kristjánsson, formaður Knattspyrnudeildar Þróttar, við miðla Þróttar.

„Ég er ótrúlega þakklátur fyrir tækifærið og allan stuðninginn sem ég hef fengið hjá Þrótti. Ég hlakka mikið til að takast á við nýjar áskoranir hjá Inter Milan og læra sem mest á þessum vettvangi,“ sagði Björn Darri við miðla Þróttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×