Tónlist

Samdi lag um ást sína á RIFF

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Magnús Orri hefur unnið sem klippari hjá Fréttablaðinu og Hringbraut, komið að gerð sjónvarpsþáttanna Með okkar augum og unnið við hljóðblöndun á Netflix-þáttunum Heartstopper.
Magnús Orri hefur unnið sem klippari hjá Fréttablaðinu og Hringbraut, komið að gerð sjónvarpsþáttanna Með okkar augum og unnið við hljóðblöndun á Netflix-þáttunum Heartstopper. Vísir/Vilhelm

Klipparinn Magnús Orri Arnarson hefur gefið út lagið „RIFFARAR“ sem fjallar um ást hans á kvikmyndhátíðinni RIFF sem hefst á fimmtudag. Magnús samdi og söng lagið, leikstýrði tónlistarmyndbandinu og klippti það svo.

Magnús Orri hefur komið víða við þrátt fyrir ungan aldur, hann vann sem klippari, tökumaður og ljósmyndari hjá Fréttablaðinu og sjónvarpstöðinni Hringbraut í nokkur ár og hefur komið að gerð þáttanna Með okkar augum en hann er sjálfur einhverfur og með tourette.

Sjá einnig: Eini fatlaði starfsmaðurinn hjá Netflix

„Ég er stoltur af því kynna lagið „RIFFARAR“ sem var samið með hjálp snjallsímaforritsins Overtune. Lagið er tileinkað RIFF með það að markmiði að vekja athygli á hátíðinni, hvetja fólk til að mæta í bíó og njóta saman kraftsins sem kvikmyndir hafa til að sameina fólk,“ segir Magnús.

Vann að aðgengismálum á hátíðinni

Magnús hefur sjálfur verið að vinna undanfarna mánuði hjá RIFF við að framleiða myndefni fyrir samfélagsmiðla hátíðarinnar og fékk þá hugmynd að laginu. 

Tökur fyrir tónlistarmyndbandið hófust í maí þegar handritið var tilbúið en þá fékk hann til liðs við sig starfsmenn á vegum RIFF sem aðstoðuðu við tökur og framleiðslu.

„Maggi klipp kom með þessa hugmynd í vor þegar hann fór að vinna fyrir okkur að gerð myndbanda en líka til þess að vinna að aðgengismálum varðandi sýningar á RIFF,“ segir Hrönn Marínósdóttir, stjórnandi RIFF.

„Hann kom meðal annars með þá góðu hugmynd að hafa kvikmyndasýningar á RIFF með auknu aðgengi, sýningarnar verða þannig að hljóðið verður lægra, ljósin örlítið bjartari, hjólastólaaðgengi tryggt og gestir mega hreyfa sig, gefa frá sér hljóð eða tekið hlé eftir þörfum. Við sýnum tvær kvikmyndir sem höfða til breiðs hóps um helgar í Sal 3 sem verða með þessu sniði,“ segir hún.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.