Erlent

Flug­vellinum í Ála­borg lokað vegna drónaflugs

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Frá aðgerðum dönsku lögreglunnar við Kastrup flugvöll í fyrradag.
Frá aðgerðum dönsku lögreglunnar við Kastrup flugvöll í fyrradag. EPA/Steven Knap

Flugvellinum í Álaborg á Jótlandi í Danmörku hefur verið lokað vegna drónaflugs. Einungis tveir dagar eru síðan Kastrup flugvelli og Gardenmoen flugvelli í Osló var lokað vegna slíks flugs.

Í umfjöllun danska ríkisútvarpsins segir að flugvellinum hafi verið lokað vegna þessa og að í hið minnsta fjórum flugvélum hafi verið stefnt annað. Lögregla er á vettvangi. 

Lögreglan í Álaborg heldur blaðamannafund vegna málsins klukkan 22:00 að íslenskum tíma. Þá hefur danska ríkislögreglan sent frá sér yfirlýsingu um að hún hyggist halda blaðamannafund hálftíma síðar, klukkan 22:30 að íslenskum tíma um drónaflug í landinu undanfarna daga. 

Samkvæmt lögreglunni í Álaborg sást fleiri en einn dróni á sveimi yfir flugvellinum. Eigi lögregla möguleika á að skjóta þá niður þá verður það gert ef það er talið öruggt, að því er fram kemur á blaðamannafundi sem hófst fyrir skemmstu. Fram kemur í umfjöllun TV2 að lögregla telji að nú þegar komið er á tíunda tímann á Íslandi séu enn drónar í lofti yfir flugvellinum.

Jesper Bøjgaard lögreglustjóri lögreglunnar á Norður-Jótlandi segir að farþegum á flugvellinum og íbúum í Álaborg stafi ekki hætta af drónunum. Markmiðið sé að finna þá sem beri ábyrgð. 

Hann vill ekki segja til um hve stórir drónarnir séu eða hvort að þeir sem fljúgi þeim séu í grennd við flugvöllinn. Ekki sé hægt að segja til um það á þessum tímapunkti hvort drónaflugið muni koma til með að hafa áhrif á flugferðir frá vellinum í fyrramálið. 

Dönsk yfirvöld hafa enn ekki tjáð sig um það hvern þau gruni um að bera ábyrgð vegna flugsins. Volodómír Selenskí Úkraínuforseti hefur fullyrt að Rússar beri ábyrgð. 

Fréttin verður uppfærð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×