Erlent

Sést til dróna við fjóra flug­velli í Dan­mörku

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Frá aðgerðum lögreglunnar í Danmörku við Kastrup fyrir tveimur dögum.
Frá aðgerðum lögreglunnar í Danmörku við Kastrup fyrir tveimur dögum. Steven Knap/Ritzau Scanpix/AP

Dönsk lögregluyfirvöld hafa í kvöld fengið ábendingar um drónaflug nærri þremur flugvöllum til viðbótar við flugvöllinn í Álaborg sem lokað var fyrr í kvöld. Um er að ræða flugvelli við Esbjerg, Sønderborg and Skrydstrup.

Þetta staðfestir lögreglan á samfélagsmiðlum. TV2 greinir frá því að flugvöllurinn sem um ræðir í Skrydstrup sé herflugvöllur. Þar séu danskar orrustuþotur meðal annars hýstar. Lögreglan segist í færslu sinni á miðlunum vera að kanna málið og að frekari upplýsingar muni berast síðar í nótt. Danskir miðlar hafa reynt að fá á hreint hvort til standi að loka lofthelgi flugvallanna en við því hafa enn ekki fengist svör. 

Eins og fram hefur komið var flugvellinum í Álaborg lokað fyrr í kvöld vegna drónaflugs. Tveir dagar eru síðan flugvellinum á Kastrup var lokað vegna slíks flugs. Flugvellinum í Álaborg er enn lokað og hafa flugmálayfirvöld sagt of snemmt að segja til um hvenær flugumferð hefst að nýju af vellinum.

Á blaðamannafundi lögreglunnar fyrr í kvöld sagðist lögreglan ekki telja að drónarnir sem um ræðir í Álaborg og í Kaupmannahöfn séu í einkaeigu. Dönsk yfirvöld hafa ekkert fullyrt um hver beri ábyrgð en Úkraínuforseti hefur fullyrt að Rússar beri ábyrgð.

Fram kom á blaðamannafundinum að ábendingum um meint drónaflug rigni nú yfir dönsk lögregluyfirvöld. Thorkild Fodge ríkislögreglustjóri Danmerkur biðlaði til almennings um að fljúga ekki drónum nálægt flugvöllum.

Þá sagði Fodge að lögreglustjórar Danmerkur muni funda saman vegna málsins á fimmtudag. Lögregla sé með aukinn viðbúnað við flugvelli landsins. Hann segir að lögregla muni róa að því öllum árum að skjóta drónana niður sé þess kostur, í samráði við danska herinn. Lykilatriði sé að komast að því hver beri ábyrgð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×