Íslenski boltinn

Blikar gætu aftur orðið Ís­lands­meistarar í kvöld

Sindri Sverrisson skrifar
Breiðablik hefur þegar landað bikarmeistaratitli á þessari leiktíð og er ríkjandi Íslandsmeistari.
Breiðablik hefur þegar landað bikarmeistaratitli á þessari leiktíð og er ríkjandi Íslandsmeistari. vísir/Anton

Breiðablik hefur aðeins tapað einum leik og gert eitt jafntefli allt tímabilið í Bestu deild kvenna í fótbolta. Liðið gæti mögulega tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn annað árið í röð í kvöld.

Það þarf ekki mikið að gerast til þess að Blikakonur fagni Íslandsmeistaratitli á Kópavogsvelli í kvöld.

Ef að þær vinna Stjörnuna, og FH vinnur ekki Val í Kaplakrika, er Breiðablik aftur orðið Íslandsmeistari. Liðið yrði þá tvöfaldur meistari eftir að hafa unnið Mjólkurbikarinn í sumar.

Blikakonur gætu fengið að vita úrslitin úr Krikanum þegar leikur þeirra við Stjörnuna verður nýhafinn, og þar með hvort möguleiki sé á að landa titlinum í kvöld.

  • Leikir dagsins:
  • 16.15 FH - Valur
  • 18.00 Breiðablik - Stjarnan
  • 18.00 Þróttur - Víkingur
  • 19.15 Þór/KA - Tindastóll

Mikil barátta um hitt Evrópusætið

Lokakafli Bestu deildarinnar hefst í dag, eftir að deildinni var skipt í efri hluta (lið 1-6) og neðri hluta (lið 7-10). Blikakonur fara inn í lokahlutann með ellefu stiga forskot á FH og þrettán stiga forskot á Þrótt, eða 49 stig eftir 18 leiki og markatöluna 77-15.

Algjörir yfirburðir og fjarri því sama spenna og í fyrra þegar Blikar unnu titilinn með tæpasta hætti, með jafntefli við Val í lokaumferðinni.

Spennan í efri hlutanum er þó mikil í kapphlaupi FH og Þróttar í baráttunni um 2. sæti, eða Evrópusæti. FH er með 38 stig, tveimur stigum ofar en Þróttur, og má því illa við að misstíga sig gegn Val í kvöld á meðan Þróttarar takast á við Víkinga í Laugardal.

Endar Þór/KA í bullandi fallbaráttu í dag?

Í neðri hlutanum gæti Tindastóll togað Þór/KA niður í harkalega fallbaráttu með sigri á Akureyri í kvöld. FHL er fallið og Tindastóll í næstneðsta sæti með 17 stig, fjórum stigum á eftir Þór/KA og Fram sem fær FHL í heimsókn á laugardaginn.

Hægt er að minna á að allir leikir í Bestu deild kvenna eru sýndir á sportrásum Sýnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×