Erlent

Thunberg meðal 500 hand­tekinna aðgerðasinna

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Greta Thunberg var meðal þeirra sem voru handteknir.
Greta Thunberg var meðal þeirra sem voru handteknir. Utanríkisráðuneyti Ísrael

Ísraelskir hermenn fóru í gærkvöldi og í nótt um borð í tugi báta og skipa sem tilheyra „Frelsisflotanum“ svokallaða og handtóku áhafnarmeðlimi og lögðu hald á skipin.

Frelsisflotanum er ætlað að koma hjálpargögnum til stríðshrjáðra á Gasa svæðinu en Ísraelsk stjórnvöld hafa svæðið í herkví og höfðu ítrekað sagt aðgerðarsinnunum að þeir fengju ekki að leggja að bryggju á Gasa. 

Í gærkvöldi var svo látið til skarar skríða og farið um borð í þá báta lengst voru komnir á leið sinni.

Fjöldi fólks var handtekinn, þar á meðal aðgerðarsinninn Greta Thunberg, sem hefur verið einn ötullasti talsmaður Frelsisflotans. Talið er að um 500 aðgerðasinnar séu nú í haldi Ísreala en talsmenn flotans segja að tugir skipa séu enn á siglingu, nú þegar Gasa ströndin er í tæplega 50 sjómílna fjarlægð. 

Fleiri skip eru síðan að bætast í leiðangurinn og tónlista- og baráttukonan Magga Stína er ásamt hundrað öðrum um borð í einu sem lagði af stað frá Ítalíu í fyrradag. 

Aðgerðir Ísraela hafa vakið hörð viðbrögð víða; mannréttindastjóri Evrópusambandsins hefur kallað eftir því að Ísraelar hætti herkvínni, ítölsk verkalýðsfélög hafa boðað til allsherjarverkfalls á morgun til að styðja málstaðinn og yfirvöld í Tyrklandi saka Ísraela um hryðjuverk. 

Forseti Kólombíu, Gustavo Pedro, hefur nú sagt upp fríverslunarsamningi landanna og rekið alla ísraelska diplómata úr landi en að minnsta kosti tveir Kólombíumenn eru á meðal hinna handteknu. 

Ísraelar hafa tvívegis áður komið í veg fyrir að slíkir hjálparbátar kæmust til Gasa, það var í júní og júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×