Innherji

Sjálfsát Sjálf­stæðis­manna

Ráðgjafinn skrifar
Margt bendir til þess að loksins sé að takast að breyta ásýnd Sjálfstæðisflokksins i Reykjavík.
Margt bendir til þess að loksins sé að takast að breyta ásýnd Sjálfstæðisflokksins i Reykjavík.

Svo virðist sem stærsta hættan sem stafar að Sjálfstæðisflokknum í borginni sé – einu sinni sem oftar – flokkurinn sjálfur og þeir flokkadrættir sem tíðkast hafa þar um áratugaskeið.

Flokkurinn hefur verið á góðu róli í borginni undir forystu Hildar Björnsdóttur og eygir nú möguleika á að koma loksins bútasaumsflokkunum á vinstri vængnum frá. Góður stígandi hefur verið í könnunum og fylgi Hildar helmingi meira, eða jafnvel tvöfalt i sumum könnunum, á við það sem Sjálfstæðisflokkurinn nýtur til Alþingis. Margt bendir til þess að loksins sé að takast að breyta ásýnd Sjálfstæðisflokksins i Reykjavík.

Auðvitað er fyrirsjáanlegt að lukkuriddarar stökkvi til og hugsi sér gott til glóðarinnar. Nýti sér vinnu annarra. Einhverjir hafa haft uppi hugmyndir um að Guðlaugur Þór Þórðarson – sumpart holdgervingur hjaðningarvíga í flokknum – sé líklegur til að láta til skarar skríða og freista þess að fara í prófkjör í borginni. Fátt í gögnum máls bendir samt til þess að hann sé líklegur til stórræðna.

Guðlaugur Þór hefur um árabil verið oddviti Sjálfstæðisflokksins i Reykjavíkurkjördæmi norður. Nú síðast fékk hann 17 prósent, en undanfarnar kannanir benda til þess að fylgið í kjördæmi Guðlaugs sé nú komið vel niður fyrir léttvínsprósentu.

Sveitastjórnarfólk um allt land hlýtur að liggja á bæn og vona að þingflokkurinn komi sér kyrfilega fyrir í aftursætinu á næstu mánuðum.

Staða hans innan Sjálfstæðisflokksins hefur oft byggst á því að ala á óeiningu og flokkadráttum og leitt til þess að flokkurinn hefur um árabil verið klofinn í tvennt í Reykjavik. Nú loksins þegar flokkurinn virðist eygja möguleikann á að ná árangri í Reykjavik væri misráðið að tefla fram Guðlaugi Þór ef ætlunin er að auka líkur á löngu tímabærum meirihlutaskiptum í Reykjavík.

Og raunar mættu fleiri þingmenn taka þetta til sín ef litið er á þann mun sem er á fylgi Sjálfstæðisflokksins í landsmálunum annars vegar og í borginni hins vegar. Sveitastjórnarfólk um allt land hlýtur að liggja á bæn og vona að þingflokkurinn komi sér kyrfilega fyrir í aftursætinu á næstu mánuðum.

Ef Guðlaugur Þór ber hag flokks síns fyrir brjósti ætti hann að fara að þeim sömu ráðum. En ekki síst er það ábyrgðarhluti að hann sjái til þess að nátttröll úr hans röðum haldi sig til hlés.

Úr milljörðum í milljónir

Play varð á dögunum þriðja íslenska lággjaldaflugfélagið til að sigla í strand á rétt rúmum áratug. Spurning er hversu lengi þarf að bíða áður en hugmynd að enn einu lággjaldaflugfélaginu sprettur upp, en svo virðist sem ávallt sé hægt að finna fjárfesta í flugfélög annars vegar og fjölmiðla hins vegar. Jafnvel þótt sporin hræði.

Richard Branson, stofnandi Virgin flugfélagsins, sagði einhverju sinni að fljótlegasta leiðin til að verða milljónamæringur, væri að eiga milljarð og stofna svo flugfélag. Sama væri hægt að segja um fjölmiðlana, eins og Helgi Magnússon, fyrrverandi eigandi Fréttablaðsins, var kannski síðastur til að finna fyrir svo einhverju nemi. Og margir fleiri geta vottað um.

Að baki hvoru tveggja liggja enda göfugar hvatir. Við værum öll fátækari ef enginn byði ríkisfjölmiðlinum byrginn. Já, eða risanum á flugmarkaði – Icelandair.


Ráðgjafinn er innanbúðarmaður sem tekur púlsinn á stöðunni innan stjórnmála og atvinnulífs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×