Körfubolti

Kristófer fjar­lægir sig frá Coolbet fjöl­skyldunni

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Kristófer Acox virðist ekki lengur vera meðlimur „Coolbet fjölskyldunnar“
Kristófer Acox virðist ekki lengur vera meðlimur „Coolbet fjölskyldunnar“ vísir

Kristófer Acox og Coolbet hafa fjarlægt allar færslur þar sem leikmaðurinn sést á samfélagsmiðlum veðmálasíðunnar. Körfuknattleiksdeild Vals vildi ekki tjá sig um málið.

Kristófer greindi frá ákvörðun á Instagram í gær, þar sem hann tilkynnti að hann væri orðinn meðlimur „Coolbet fjölskyldunnar“.

„Það verða pottþétt einhverjir ósáttir, en sjitt maður, ég er vanur því,“ sagði Kristófer í tilkynningunni sem hefur nú verið eytt af Instagram.

Kristófer birtist svo í auglýsingu Coolbet á samfélagsmiðlinum X í gærkvöldi, þar sem fólki var ráðlagt í veðmálum fyrir nokkra af körfuboltaleikjum gærkvöldsins.

Úrslitin sem spáð var fyrir um reyndust röng. 

Þar af voru tveir leikir í Bónus deildinni sem Kristófer spilar sjálfur í.

„Það hryggir mig mjög að Kristófer fari þessa leið til að þéna peninga,“ sagði Hannes S. Jónsson, framkvæmdastjóri KKÍ, í samtali við Vísi.

Myndböndin sem Kristófer setti á Instagram og myndin sem Coolbet birti á X hafa nú verið fjarlægð. Kristófer er hvergi sjáanlegur á samfélagsmiðlum Coolbet og sömuleiðis er Coolbet hvergi sjáanlegt lengur á samfélagsmiðlum Kristófers.

Á Instagram reikningi Kristófers má þó enn finna myndir af honum í fatnaði frá veðmálafyrirtækinu Betsson, en eðlismunur er þar á, vegna þess að Kristófer auglýsir veðmálastarfsemi fyrirtækisins ekki með beinum hætti þar eins og hann gerði fyrir Coolbet í gær.

Stjórn körfuknattleiksdeildar Vals vildi ekki tjá sig um málið þegar Vísir leitaði viðbragða og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur ekki náðst í Kristófer Acox.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×