Íslenski boltinn

Mollee og Kayla héldu ör­litlu lífi í Evrópudraumum Þróttara

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kayla Marie Rollins hefur skorað fjögur mörk í úrslitakeppninni.
Kayla Marie Rollins hefur skorað fjögur mörk í úrslitakeppninni. Vísir/Diego

Þróttarar sóttu þrjú stig í Garðabæinn í dag eftir 1-0 sigur á heimakonum í Stjörnunni í næstsíðustu umferð í Bestu deild kvenna í fótbolta.

Kayla Marie Rollins skoraði eina mark leiksins á 21. mínútu með skalla eftir hornspyrnu Sæunnar Björnsdóttur.

Kayla Marie Rollins hefur þar með skorað fjögur mörk í úrslitakeppninni.

Önnur hornspyrna Sæunnar skilaði laglegu skallamarki hjá Katie Cousins í fyrri hálfleiknum en mark hennar var dæmt af fyrir brot hjá öðrum Þróttara inni í teignum.

Staðan var því 1-0 í hálfleik en Stjörnukonur fengu frábært færi á 56. mínútu þegar dæmd var vítaspyrna fyrir brot á Birnu Jóhannsdóttur.

Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir fór á vítapunktinn en Mollee Swift varði vítið frábærlega frá henni.

Mollee og Kayla héldu því örlitlu lífi í Evrópudraumum Þróttara.

Þróttur á nefnilega enn tölfræðilega möguleika á því að ná Evrópusætinu en þeir eru þó varla raunhæfir eftir að FH-konum tókst að koma til baka á móti Víkingum.

FH er með þriggja stiga forskot fyrir lokaumferðina en FH-konur eru einnig með átján marka forskot í markatölu. Það þarf því sögulegar sviptingar á markatölunni í lokaleikjunum ætli Þróttarakonur að komast í Evrópukeppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×