Bíó og sjónvarp

Hótel­stjóri Hótels Tinda­stóls er allur

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Prunella Scales með samleikurum sínum í Fawlty Towers, þeim Connie Booth, John Cleese og Andrew Sachs árið 1979.
Prunella Scales með samleikurum sínum í Fawlty Towers, þeim Connie Booth, John Cleese og Andrew Sachs árið 1979. Getty

Leikkonan Prunella Scales, sem er þekktust fyrir að leika hótelstjórann Sybil Fawlty í bresku grínþáttunum Fawlty Towers, er látin, 93 ára að aldri.

BBC greinir frá.

„Elskuleg móðir okkar, Prunella Scales, lést friðsællega á heimili sínu í Lundúnum í gær, sögðu synir hennar, Samuel og Joseph, við PA News Agency.

Aðalpersónurnar í Hóteli Tindastóli.

Jafnframt tóku bræðurnir sérstaklega fram að hún hefði horft á Fawlty Towers, eða Hótel Tindastól á íslensku, daginn áður en hún dó.

„Þrátt fyrir að heilabilun hefði neytt hana í helgan stein eftir merkilegan 70 ára leiklistarferil þá bjó hún áfram heima hjá sér,“ sögðu bræðurnir í tilkynningunni. 

Prunella greindist með svokallaða æðaheilabilun (e. vascular dementia) árið 2013 en hún er af völdum heilaæðasjúkdóms sem truflar blóðflæði til heilavefja. 

Hótelstjóri og ýmislegt annað

Prunella hóf feril sinn í sjónvarpi árið 1952 þegar hún lék í framhaldsþáttaröðinni Pride and Prejudice. 

Í kjölfarið lék hún í fjölda kvikmynda og sjónvarpsþátta en vakti fyrst almennilega athygli í grínþáttunum Marriage Lines sem voru sýndir í fimm þáttaraðir.

Stærsta hlutverk Scales er þó vafalaust Sybil Fawlty í gamanþáttaröðinni Fawlty Towers sem var sýnt frá 1975 til 1979. Þrátt fyrir að hafa verið aðeins sýndir í stutta stund eru þeir einir vinsælustu grínþættir Bretlands. Hún lét þó ekki staðar numið þar og lék alveg fram til 2015 þegar hún gat ekki leikið meira vegna heilabilunarinnar.

Prunella lætur eftir sig tvo syni, eina stjúpdóttur, sjö barnabörn og fjögur barnabarnabörn. Eiginmaður Prunellu, leikarinn Timothy Wes, lést í nóvember í fyrra, níutíu ára gamall.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.