Sport

„Búnt á skenkinn, Halli Egils á vegginn“

Sindri Sverrisson skrifar
Halli Egils sýndi sínar bestu hliðar í Grindavík á laugardaginn og fagnaði sigri.
Halli Egils sýndi sínar bestu hliðar í Grindavík á laugardaginn og fagnaði sigri. Sýn Sport

Hallgrímur Egilsson, eða Halli Egils, naut sín í botn í stemningunni miklu í Grindavík á laugardagskvöld þegar hann vann annað undankvöld Úrvalsdeildarinnar í pílukasti.

„Stressið, spennan, vá! Þetta var æðislegt,“ sagði Halli í viðtali eftir keppnina sem sjá má hér að neðan.

Klippa: Halli Egils bestur í Grindavík

Adrenalínið var á fullu hjá Halla sem var vel studdur og mátti ítrekað heyra sungið: „Búnt á skenkinn, Halli Egils á vegginn“ kyrjaði hópur manna í Kvikunni, þar sem mótið fór fram í beinni útsendingu á Sýn Sport.

„Maður vill hafa hávaðann á bakvið sig og söngvana. Þetta er æðislegt,“ sagði Halli.

Stórbrotin frammistaða: „Ég gerði bara engin mistök“

Halli sýndi bestu frammistöðu sem sést hefur í sögu Úrvalsdeildarinnar og sópaði Árna Ágústi Daníelssyni út í úrslitunum með meðalskor upp á 90 stig og meistaraleg útskot.

„Ég gerði bara engin mistök. Það gekk allt upp hjá mér. Árni er erfiður andstæðingur. Hann er búinn að hafa tak á mér og vann mig [á föstudaginn] 7-3. En núna tók ég á hann og svo á ég hann í fyrsta leik á síðasta kvöldinu í undankeppninni,“ sagði Halli.

Áður hafði hann unnið Halla Birgis 3-2 í átta manna úrslitum og sópað Jóni Bjarma Sigurðssyni, sigurvega fyrsta undankvöldsins, í undanúrslitum.

„Eiginlega keppni í heppni“

„Þetta er svo stutt format. Best af fimm. Þetta er eiginlega bara keppni í heppni. Svipað og ef við myndum spila körfuboltaleiki 2x10 mínútur. Ég er mjög ánægður,“ sagði Halli Egils en viðtalið við hann og frammistöðu hans í úrslitunum má sjá hér að ofan.

Hver keppandi tekur þátt í tveimur undankvöldum og nú er tveimur kvöldum af fjórum lokið. Því hafa sumir keppendur þegar lokið sinni undankeppni, aðrir keppt á einu kvöldi og enn aðrir eiga eftir að stíga á stokk. Átta efstu komast svo áfram og eiga möguleika á að vinna titilinn en þessir eru efstir sem stendur:

Átta efstu eftir tvö af fjórum undankvöldum. Ljóst er að þessi staða mun breytast.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×